146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orlof húsmæðra.

119. mál
[18:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að blanda mér aðeins inn í þessa umræðu um húsmæðraorlof á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Það er auðvitað svolítið sérstakt, ég segi ekki að flutningsmenn hafi valið sér sérstaklega þennan dag, ég reikna nú ekki með því. En það er svolítið táknrænt að við skulum ekki vera komin lengra en það varðandi jafnrétti til launa, að við séum ekki búin að afnema kynbundinn launamun og að vinnumarkaðurinn okkar sé eins kynskiptur og raun ber vitni í dag. Konur tala um það núna á þessum baráttudegi að öll störf séu kvennastörf. Það er bara þannig. Öll störf eiga að vera kvennastörf. Alveg eins og öll störf eiga að vera karlastörf. Það á ekki að greina þar á milli. En við erum því miður ekki komin á leiðarenda hvað jafnrétti kynjanna varðar. Sá er veruleikinn.

Þetta mál er auðvitað ansi snúið miðað við stöðuna í dag. Sem jafnréttissinni gæti ég haldið hér ræðu um að að sjálfsögðu ættu karlar líka að eiga rétt á að komast í orlof, þeir sem hafa lágar tekjur og búa við þannig félagslegar aðstæður að hafa ekki möguleika á að fara í orlof eins og þeir efnameiri nema með einhverjum stuðningi og skipulögðum ferðum eins og boðið er upp á af hálfu húsmæðraorlofsnefnda.

Á hinn bóginn virði ég þessa löngu forsögu og hef fullan skilning á því að þetta hafi verið sett á á sínum tíma. Mér finnst að við þurfum að sýna þeirri forsögu virðingu. Það hefur komið fram í máli þeirra sem hafa blandað sér í þessa umræðu að við gætum litið á málið lausnamiðað og horft til þess að hægt sé að hafa sólarlagsákvæði varðandi húsmæðraorlof. Ég sæi það fyrir mér og myndi alveg gefa því tíu ár ef því væri að skipta.

Þetta eru auðvitað ekki háar fjárhæðir sem þarna eru undir. Þetta eru 30 milljónir. Þetta er í sjálfu sér, þótt maður eigi kannski ekki að segja það hérna, bara brandari að verið sé að leggja svona mikla áherslu á að afnema þetta, nema það sé af svo miklum prinsippástæðum. Fjárhagslega er það nú varla þyngsti bagginn á sveitarfélögum að borga 100 kr. með hverjum íbúa í þennan sjóð.

Ég þekki ágætlega til þessara ferða. Þær eru farnar vítt og breitt um landið og vekja mikla ánægju og lukku. Það eru kannski ekki bara fullorðnar heimavinnandi konur sem fara heldur yngri líka. En þær konur hafa kannski ekkert endilega tök á því að fara í ferðir, bæði út af heimilisaðstæðum og eru með lágar tekjur. Það er margt sem getur spilað inn í, þær eru ekkjur og hafa kannski ekki mikla möguleika á að ferðast með sinni fjölskyldu, alls konar aðstæður, og þeim þykir mjög gott að geta sótt um að fara í svona skipulagðar ferðir sem hafa held ég alls staðar lukkast mjög vel og verið vel utan um þær haldið. Þessir peningar sem skipuleggjendur fá til þess að greiða niður þessar ferðir hafa verið mjög vel nýttir, eins og konum er einum tamt, nýta hverja krónu mjög vel og fara sparlega með.

Auðvitað gæti maður líka hugsað sér að gera einhverjar breytingar varðandi reglur í kringum þessar ferðir. Það sé höfð til hliðsjónar eitthvert tekjuviðmið og félagslegar aðstæður viðkomandi. Þær konur sem væru efnaðar eða efnameiri borguðu eitthvað hærra gjald fyrir að fara í slíkar ferðir en þær konur sem fá ferðirnar niðurgreiddar. Það má alveg hugsa það með einhverjum þeim hætti. En það breytir ekki því að verið er að tala um áfram að sveitarfélögin greiði þessar 100 kr. á íbúa í orlofssjóð. Það breytir ekki því.

Ég held að í þessu máli sem og ýmsum öðrum séu hlutirnir ekki alltaf svart/hvítir meðan við erum ekki komin á þann stað að konur standi jafnfætis körlum á svo mörgum sviðum. Við vitum að launamunurinn er enn þá mikill, aðstæður kvenna eru víða þannig að þær búa við mjög erfiðar félagslegar og fjárhagslegar aðstæður, það er fátækar konur. Það á auðvitað við um eldri kynslóð kvenna sem hefur þrælað sér út inni á heimilum fyrir engin laun og framlag þeirra vissulega ekki alltaf metið sem skyldi. Það er kannski næsta kynslóð á eftir sem horfir til formæðra sinna og dáist að dugnaði þeirra, hvernig þær gátu eiginlega gert allt milli himins og jarðar á heimilunum og hvernig sólarhringurinn gat dugað til með fjölda barna og allt sem þær lögðu á sig en var aldrei metið í þjóðhagsreikningum samfélagsins, þessi ólaunaða vinna sem samfélagið hefur aldrei reiknað upp og hefur ekki gert í dag.

Sem betur fer eru konur að styrkja sig á öllum sviðum. Sú barátta heldur áfram. Valdefling kvenna er eitt sem við þurfum auðvitað að leggja mikla áherslu á. En við eigum líka að virða og hugsa til þeirra kvenna sem eiga fullan rétt á því að fá einhvern stuðning samfélagsins til þess að njóta þess að fara í orlof einu sinni á ári eins og þessar ferðir gera út á, að farið sé einu sinni á ári og konum gefist þá kostur á að sækja um slíka ferð. Þess vegna myndi ég leggja mikla áherslu á að þetta mál yrði skoðað út frá þeim sjónarhóli að vissulega sé það ákveðið barn síns tíma en við séum samt ekki komin á þann stað að við getum afneitað því að fjöldi kvenna á Íslandi býr við erfiðar aðstæður, hefur ekki mikið fé milli handanna og hefur sinnt í gegnum tíðina ólaunuðum heimilisstörfum langt umfram karlana og á þess vegna fullan rétt á að geta nýtt sér húsmæðraorlof. Þá sé horft til þess að sett verði sólarlagsákvæði. Ég myndi telja að tíu ár gætu verið sanngjarnt í þeim efnum. Ég held að sveitarfélögin ráði alveg við að greiða inn í þessa sjóði þangað til og ættu bara að vera stolt af því og geta með einhverjum öðrum hætti unnið að jafnrétti kynjanna, jafnlaunavottun innan sveitarfélaga og unnið að því í sinni jafnréttisstefnu að jafna kjör og stöðu karla og kvenna. Þegar við erum komin þangað verður ekkert svona mál hér á dagskrá að ég tel.

En enn og aftur: Konur um allan heim, til hamingju með þennan alþjóðlega baráttudag. Við höldum áfram að berjast hvar sem við erum staddar í samfélaginu og munum gera það fyrir formæður okkar og dætur og komandi kynslóðir.