146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orlof húsmæðra.

119. mál
[18:45]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla með leyfi forseta að fá að byrja á að vitna í smáskilaboð frá áttræðri ömmu minni sem ég fékk í síðustu viku, sem hefur verið húsmóðir stærstan hluta lífs síns. Þau hljóma svo:

„Hæ. Ég er sammála um að afnema lög um orlof húsmæðra. Kveðja, amma.“

Ég velti fyrir mér í dag hvort við viljum hafa lög sem gera ráð fyrir því að konur séu einar heimavinnandi með börnin. Það er allavega áhugavert að berjast fyrir því að lög séu enn í gildi á þessum merka degi þó að það hafi ekki verið sérstök ætlan flutningsmanna að flytja þetta frumvarp á þessum degi. Ég held að við þurfum að komast út úr þessari hólfaskipan. Þetta er eitt af mörgum skrefum í þá átt. Margt smátt gerir vissulega eitt stórt. Þetta er jafnréttismál. Þessi lög áttu auðvitað að auka virði húsmóðurstarfsins á sínum tíma en á þeim 56 árum sem lögin hafa verið í gildi hefur margt breyst.

Það var eðlilegt að umbuna þessum hópi þá, en í dag vinna konur utan heimilisins og eiga þar rétt á orlofi. Þetta samræmist ekki gildum þjóðfélags okkar í dag.

Það hlýtur að vera krafa þeirra sem berjast fyrir jafnrétti að allar konur og allir kallar sitji við sama borð í þessu sem og öllu öðru. Ég tel því rétt að afnema lög um húsmæðraorlof og tek undir með þeim sem telja þau tímaskekkju því að ég held einfaldlega að þau gefi ranga mynd af jafnréttisbaráttunni, sem er einmitt svo mikilvæg.