146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

120. mál
[18:50]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, afnám lágmarksútsvars. Flutningsmenn ásamt mér, Vilhjálmi Árnasyni, eru hv. þingmenn Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Hildur Sverrisdóttir.

Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði um lágmarksútsvar sveitarfélaga verði afnumið. Sambærileg frumvörp hafa verið lögð fram nokkrum sinnum áður en hafa ekki hlotið afgreiðslu. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hafði framgöngu um að leggja fram síðustu tvö málin.

Þegar lögum um tekjustofna sveitarfélaga var breytt árið 1993 voru sett inn ný mörk um hámarksútsvar ásamt því að lágmarksútsvar var tekið upp. Ákvæðið um lágmarksútsvar var umdeilt, m.a. vegna þess að það leiddi til verulegrar hækkunar á útsvari sumra sveitarfélaga.

Sveitarfélögin hafa ákveðna tekjustofna, t.d. útsvar, fasteignaskatt og þjónustutekjur ýmsar. Þau nýta þessa tekjustofna til að sinna lögbundnum hlutverkum sínum, svo sem rekstri grunnskóla, félagsþjónustu o.s.frv. Með þessu frumvarpi eru ekki lagðar til breytingar á lögbundnu hlutverki sveitarfélaga. Vilji sveitarfélög hins vegar lækka útsvar sitt á löggjafinn ekki að standa í vegi fyrir því.

Í 78. gr. stjórnarskrárinnar er sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga staðfestur og kveðið á um að sveitarfélögin skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Haldgóð rök og verulegir hagsmunir þurfa því að koma til ef skerða á þennan ákvörðunarrétt. Bein íhlutun um lágmarksútsvar getur tæpast talist uppfylla þau skilyrði. Það hefur oft verið rætt úr þessum ræðustól hvað sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaganna er ríkur og hvað þeim er annt um hann. Ég held að við skulum standa með sveitarfélögunum í því.

Óeðlilegt er að bundið sé í lög að innheimta skuli að lágmarki tiltekinn skatt af íbúum, hvort sem þörf sé á honum til að sinna lögbundnu hlutverki eða ekki. Sveitarfélag þarf að rækja lögbundið hlutverk sitt, en óhófleg afskipti löggjafans af því hvernig slíkt er fjármagnað eru óþörf og dregur úr valdi og ábyrgð kjörinna fulltrúa þjóðarinnar í sveitarstjórnum til að leita sem hagkvæmastra leiða til þess að rækja hlutverk sitt.

Ég geri mér grein fyrir því að sveitarfélög eru ekki alsátt með þetta út af þeirri samkeppnisstöðu sem er að þeirra mati verið að raska á milli sveitarfélaga, þarna séu þau sveitarfélög sem hafi meiri tekjur en önnur og annað slíkt að fá visst forskot til að búa til skattaparadísir. Þá vil ég benda á að hámarksútsvarið er um 14%, þannig að það sem hægt er að lækka þarna eru svipaðar upphæðir og sveitarfélögin geta stillt af með öðrum tekjum eins og fasteignagjöldum og öðrum þjónustugjöldum, en sveitarfélögin hafa svo mörg tækifæri til að búa sér til samkeppnisstöðu. Það eru svo mörg atriði sem koma að því hvar fólk ákveður að búa annað en útsvarið, þ.e. hvernig búið er að félagsþjónustunni, að skólanum, íþróttalífinu og hvaða atvinnutækifæri eru og staðsetning og margt annað. Ef einhverju sveitarfélaganna tekst að reka sig á hagkvæman hátt og það verður til þess að fólk flytur þangað held ég að það sé bara jákvætt fyrir sveitarfélögin, að það sé einhver að flytja þangað. Þetta eru oft fámennari sveitarfélög sem hafa þessi tækifæri til að lækka útsvarið. Við skulum ekki gera ráð fyrir því að fólk fari að skrá lögheimili sitt þarna. Eigum við að fara að gera ráð fyrir að fólk fari að brjóta lög? Mér finnst svolítið ankannalegt þegar fólk gerir alltaf ráð fyrir að aðrir séu að brjóta lög. Við skulum ekki gera það.

Það hefur líka verið bent á að þetta tefji sameiningar sveitarfélaga. Ég skal alveg taka undir það að ég er hlynntur sameiningu sveitarfélaga. En það er svo margt annað en þetta sem getur hamlað því. Það þarf að breyta lögum um jöfnunarsjóð til þess, bæði til þess að eitthvert sveitarfélag myndi fara í lágmarksútsvar, út af lögum um jöfnunarsjóð í dag er ekki einu sinni hægt að nýta lágmarksútsvar. Mörg sveitafélaganna hafa kvartað undan því. En líka varðandi sameiningar. Þegar sveitarfélög eru sameinuð er það ekki hvati í jöfnunarsjóðnum. Það er svo margt sem við getum gert á Alþingi til að hjálpa sveitarfélögunum að sameinast, t.d. að breyta jöfnunarsjóði og hafa ýmsar ívilnanir. Það væri kannski hægt að ræða það í þessu. Viljum við hafa lágmarksútsvar í gildi fyrir ákveðna stærð af sveitarfélögum? Það er hægt að ræða ýmsar útfærslur í þessu öllu saman.

Ég geri mér grein fyrir því að það þarf að horfa á jöfnunarsjóðinn og gera margt annað til að hvetja sveitarfélög til að sameinast. Ég held að við eigum að gera það áður en við förum bæði að skikka sveitarfélögin til að sameinast eða skamma þau fyrir að sameinast ekki. Það er líka annað sem ég vil benda á varðandi sameiningu sveitarfélaga, sem eru samgöngumálin og fjarskiptamálin. Við höfum verið að ræða það hér síðustu daga. Mörgum sveitarfélögum hefur verið lofað samgöngubótum ef þau sameinast. Þau hafa sameinast en samgöngubæturnar ekki borist. Ég held að það sé þáttur sem við þurfum að líta stórt til, að fara í alvöru samgönguuppbyggingu til þess að hvetja sveitarfélög til sameiningar og breyta jöfnunarsjóðnum og lánasjóðsreglum og öðru, þá getum við haldið áfram með það. En hér erum við að tala um lágmarksútsvar sem styrkir sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaganna, hvetur þau til að reka sveitarfélag sitt á hagkvæman og skynsaman hátt og það á ekki að vera Alþingi sem á að hlutast til um hvaða skatt þau leggja á þegna sína.