146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

120. mál
[18:58]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir nokkrar spurningar á stuttum tíma. Lágmarksstærðin breytir engu um prinsippið. Helst myndi ég vilja óska að frumvarpið færi óbreytt í gegn. En þarna er ég aðeins að hugsa leiðir til að koma til móts við mismunandi sjónarmið. Og annað sem ég fjallaði um í ræðu minni, við þurfum að búa til einhverja hvata fyrir sveitarfélögin til þess að sameinast. Ég vil ekki ganga alla leið og skylda þau til að sameinast. En er eitthvað sem við getum gert hér, bæði til þess að aðstoða þau og hvetja til sameininga? Það er annað.

Varðandi hámarkið, það er bara mun erfiðara að afnema það út frá stjórnarskránni. Því að alla skatta skal setja á með lögum og við megum setja lög um hvernig er farið með þá. Þannig að við getum ekki gefið sveitarfélögunum, samkvæmt stjórnarskrá, heimild til að fara að hækka skatta án þess að það sé samþykkt með lögum á Alþingi.