146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

120. mál
[19:01]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka með hámarkið: Það verður að setja hámark skatta sveitarfélaga á með lögum. Það er gert með því að setja einhverja tölu sem hámarksútsvar. Svo er hægt að setja lög um hvert svigrúm sveitarfélaganna er sem þau hafa til að nýta upp að því marki. Þau hafa ekki heimild til þess að það fari upp fyrir það. Þá heimild getum við ekki gefið sveitarfélögunum samkvæmt stjórnarskránni. Það er það sem ég er að benda á. En við getum breytt því með lögum að þau hafi aukið frelsi til að vera innan þeirra marka. Það er það sem þetta frumvarp snýst um.

Ég kom inn á það í ræðu minni að ég vissi að sveitarfélögin væru ekki öll jafn spennt fyrir þessu og eru mismunandi með það. Þá hef ég undrað mig á því að þegar þeim hentar þá kalla þau á sjálfsstjórnarrétt sinn, en stundum vilja þau ekki alveg fá hann til sín. Það er svolítið misræmi í málflutningi þeirra þar. Og varðandi það að ekki séu allir jafn spenntir fyrir frelsinu (Forseti hringir.) þegar komið er að því, þá þarf bara stundum að taka erfiðar og umdeildar ákvarðanir til að ná framförum.