146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

120. mál
[19:06]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er hugsi yfir þessu frumvarpi og finnst það í raun vekja upp fleiri spurningar í mínum huga en ég fæ svarað. Þess vegna ætla ég að freista þess að spyrja hv. þingmann og flutningsmann þessa frumvarps, Vilhjálm Árnason, um það. Mér leikur forvitni á að vita eða vil reyna að skilja betur hvernig samspilið milli þess að hafa lögbundið hlutverk, að eiga að rækja ýmsa þjónustu, og svo þess að geta bara rukkað þess vegna ekkert útsvar samræmist auknum kröfum, t.d. sem við ætlum að setja og höfum sett hér um réttindi fatlaðs fólks, hvernig hv. þingmaður sér það hreinlega geta farið saman. (Forseti hringir.) Hér á Alþingi höfum við alla vega öll verið sammála um að breytingar í átt til betri mannréttinda og í takt við 21. öldina kosta peninga og einhver mun þurfa að leggja út fyrir því á endanum.