146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

120. mál
[19:09]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. En þetta er enn þá snúið og flókið í mínum huga. Ég tel mikilvægt að sú hv. þingnefnd sem fær þetta mál til sín fari vel ofan í saumana á því og skoði hvort hægt sé að líta svo á að það felist eðlilegt jafnræði í því að fella þennan lið út og taka tekjurnar inn á einhvern annan hátt. Er með því hægt að segja að íbúar sveitarfélagana sitji við sama borð?

En gott og vel. Hv. þingmaður kom þó alla vega með sitt svar við spurningu minni.

En það er annað sem mig langar að spyrja út í. Það er hvort hann telji að sveitarfélög sem ekki innheimta útsvar eigi engu að síður að geta fengið tekjur í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, hvort þau geti (Forseti hringir.) verið stikkfrí þegar kemur að þessari tegund af skatti en geti hins vegar fengið til sín peninga sem einnig eru innheimtir en með öðrum sköttum og í gegnum annað kerfi.