146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

120. mál
[19:15]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur einmitt verið mjög mismunandi eftir sveitarfélögum hvort hentar betur, að hafa fasteignagjöldin há eða lág, eftir því hvaða atvinnustarfsemi er í sveitarfélaginu og hverrar tegundar hún er og hvernig atvinnustarfsemi þau hafa í hyggju að byggja upp eða vilja að byggist upp á sínu landsvæði og annað slíkt. Sveitarfélögin þurfa að hafa svigrúm á milli kerfa eftir því hvernig samfélag þeirra er samsett og hverjar landfræðilegar aðstæður þeirra eru. Þess vegna verða þau að hafa þetta svigrúm.

Eins og staðan er í dag: Sá sem nýtir sér lágmarksútsvarið í dag fær ekki úr jöfnunarsjóði. Það skerðist mjög hratt eins og þetta er í dag. Það sem ég er að tala um er að þarna þarf að vera svigrúm fyrir sveitarfélögin til þess að reka sig á sem hagkvæmastan og skynsamlegastan hátt.