146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

120. mál
[19:16]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í umræðu um afnám á lágmarksútsvari. Eftir að hafa fylgst með umræðunni finnst mér þetta mál vera sniðið að þeim sveitarfélögum sem eru rík, hafa fyrirtæki sem skila miklu, eins og virkjanir eða stórfyrirtæki sem skila miklum tekjum til viðkomandi sveitarfélags. Sveitarfélagið sjálft býður íbúum sínum kannski ekki þá þjónustu sem önnur sveitarfélög þurfa að gera og sækja íbúar þá ýmsa þjónustu út fyrir sveitarfélagið.

Hér var rætt að það þyrfti frelsi sveitarfélagsins til að lækka það lágmarksútsvar sem er í dag eða hafa möguleika á því. Þá spyr maður sig: Ef sveitarfélög eru svo loðin um lófana og hafa svo digra sjóði að þau þurfa ekki að nýta það lágmarksútsvar sem er í dag, af hverju í ósköpunum bjóða þau þá ekki enn betri og ódýrari þjónustu á því þjónustustigi sem þar er og lækka þá t.d. fasteignagjöld og aðra gjaldstofna hjá sér og þau hafa svigrúm til að hreyfa við? Af hverju þarf að opna þetta og brjóta upp lágmarksútsvarið? Eins og staðan er í dag eru auðvitað flest sveitarfélög frekar illa stödd fjárhagslega, mörg þeirra mjög illa, og veitir ekkert af öllum sínum tekjum. Mörg þeirra hafa úr mjög litlu framkvæmdafé að spila. Ég ætla ekki að nefna nein nöfn en sveitarfélag upp á um 1.200 manns í mínu kjördæmi hefur kannski um 30 millj. kr. til þess að framkvæma og gera eitthvað. Allar aðrar tekjur eru bundnar fyrir fram og ekkert er hægt að hreyfa við þeim.

Ég held að ef menn opna þetta verði, fyrirgefið orðbragðið, fjandinn laus. Þetta mun bara auka á misskiptingu á milli sveitarfélaga og milli íbúa.

Ég ætla aðeins að vitna í nokkra þætti í umsögn um sams konar mál frá árinu 2014 frá bæjarráði Ísafjarðarbæjar, með leyfi forseta. Bæjarráðið gefur umsögn um þetta mál og hún gæti þess vegna verið allt öðruvísi. En mér finnst allt í lagi að vitna í umsögnina frá 2014 því að mér finnst hún góð. Þetta er hluti af henni. Með leyfi forseta, þetta er frá bæjarráði Ísafjarðarbæjar 2014:

„Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggst alfarið gegn því að ákvæði um lágmarksútsvar sveitarfélaga verði afnumið. Með slíkri aðgerð væri ýtt undir aðstöðumun á milli sveitarfélaga á landinu og samkeppni þeirra á milli. Jafnframt væri hætta á því að ójöfnuður í samfélaginu mundi aukast þar sem einstaka sveitarfélög gætu boðið útsvarsprósentu sem væri miklum meiri hluta þeirra ómögulegt að bjóða. Þá er líklegt að skekkja myndi myndast á milli þess hvar fólk býr og hvar það þiggur sína þjónustu.“

Þetta er svolítið stórt mál. Við þekkjum alveg ákveðin bæjarfélög sem litið hefur út fyrir að ýttu við ákveðnum hópum innan bæjarmarka sinna og bentu þeim á að sækja þjónustu annað. Sum sveitarfélög, eins og hér á höfuðborgarsvæðinu — Reykjavík hefur mjög þungt þjónustustig. Það finnst mér vera hættuleg þróun ef sum sveitarfélög geta ýtt íbúum í ákveðna þjónustu þar sem hún er í boði en bjóða ekki sjálf upp á sambærilega þjónustu og létta þannig á fjárhagslegum útgjöldum sem snúa að t.d. félagsmálum.

Rökin fyrir lögbindingu lágmarksútsvars eru þau að allir íbúar landsins sem greiða skatta af tekjum sínum skuli greiða lágmarkshlutfall af kostnaði við samneysluna og samfélagsþjónustuna sem sveitarfélög veita íbúum. Þau rök eiga alveg jafnt við í dag og 1995 þegar lög um tekjustofna sveitarfélaga voru samþykkt. Fram kom í umræðunni að 56 sveitarfélög eru með hámarksútsvar. Þá finnst mér líka vera áhugavert að fá að vita hvað þau sveitarfélög sem eru í dag með lágmarksútsvar fá úr jöfnunarsjóði. Jöfnunarsjóður er auðvitað mjög mikilvægur. Sum sveitarfélög eru það illa stödd að þau fá mjög stóran hluta af sínum tekjum í gegnum jöfnunarsjóð. Ef þetta frumvarp verður samþykkt, ættu þá sveitarfélög sem telja sig geta lækkað útsvarið frá því sem lágmarksútsvarið er í dag að fá eitthvað úr jöfnunarsjóði yfir höfuð? Ég myndi telja að svo ætti ekki að vera. Þá væri verið að snúa hlutunum alveg á hvolf. Lögbundnar skyldur sveitarfélaga eru miklar. Kröfurnar eru eðlilega alltaf að aukast með breyttu samfélagi og auknum kröfum um mannréttindi og aukna félagslega þjónustu fyrir íbúa sveitarfélaganna. Sum sveitarfélög hafa ekki getað uppfyllt það þjónustustig sem þau eiga að uppfylla í dag.

Þess vegna tel ég að það sé eins og að opna pandóruboxið góða að opna á þetta. Ég tel að þá séu menn búnir að rjúfa friðinn í þessum málum á milli sveitarfélaga og þá verður einhvers konar gullgrafaraæði, yfirboð og samkeppni um íbúa. Það gæti orðið til þess að sum sveitarfélög færu illa út úr því ef þau ætluðu að fara í samkeppni við rík sveitarfélög sem eru með háar tekjur, eða kannski stórfyrirtæki og virkjanir, og bjóða lægra útsvar til þess að halda í íbúa sína. Ég held að þegar upp er staðið myndi það leiða af sér ansi mikla misskiptingu. Þau sveitarfélög sem berjast í bökkum í dag við að halda uppi þjónustustigi myndu enn síður geta veitt þá þjónustu sem eðlilegar og stöðugt auknar kröfur eru um í dag, hvort sem það er félagsþjónusta eða enn betri grunnskóli eða hvað við nefnum, uppbygging húsnæðis og annars og þjónusta við aldraða og öryrkja í sveitarfélaginu og öflugir leikskólar.

Tölum um leikskólana. Þau sveitarfélög sem sækjast eftir því að afnema lágmarksútsvar, gætu þau ekki t.d. boðið lægri leikskólagjöld, svo eitthvað sé nefnt? Mér finnst að við eigum ekki að horfa til þessara fáu ríku sveitarfélaga sem eru í landinu í dag. Það má alltaf taka þá umræðu hvort setja eigi upp einhvern lágmarksfjölda íbúa í sveitarfélögum upp á sameiningu að gera. Ég hef alltaf talað fyrir því að vinna eigi að sameiningu á frjálsum grunni, ekki gera það með lögþvingun. En mér finnst þetta mál vera algerlega úr takti við allt sem við þingmenn heyrum frá sveitarfélögum landsins. Það verður fróðlegt að sjá hvernig umsagnir um þetta mál verða, hvort viðhorf sveitarfélaga hafi breyst til þess, hvort þau telja einhver rök vera fyrir því að afnema lágmarksútsvar. Ég reikna síður með því. Það myndi ekki verða til þess að styrkja þjónustu í sveitarfélögum heilt yfir.