146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

120. mál
[19:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við erum auðvitað eitt samfélag. Við vitum að lögbundin skylda sveitarfélaga er mikil og hún kostar peninga. Eigum við bara að horfa til einstakra sveitarfélaga sem eru efnuð af því að þau búa við sérstakar aðstæður, hafa stórar virkjanir eða stórfyrirtæki innan sinna marka? Eigum við bara að horfa til þess og opna á samkeppnisumhverfi milli sveitarfélaga varðandi lágmarksútsvar? Heilt yfir hafa sveitarfélög sammælst um að það þurfi að vera þetta þak, þetta gólf í tekjum. Þeim veitir bara ekkert af því. Það er alltaf hættulegt þegar menn fara að brjóta það upp.

Ég held að sveitarfélög sem þurfa með einhverjum hætti að koma sínum peningum út til íbúanna aftur og eru með yfirfulla sveitarsjóði og hafa ekkert við það að gera að rukka inn lágmarksútsvar geti gert það með öðrum hætti. Þau geta kannski lagt meira fé í orlofssjóð húsmæðra, t.d. [Hlátur í þingsal.] Og styrkt önnur sveitarfélög sem eru fátækari í þeim efnum. En ég er það mikill jafnaðarmaður í mér að mér finnst það ekki áhyggjuefni þegar sveitarfélög eiga í vandræðum með að eyða peningum. Þau hljóta að geta með einhverjum hætti komið peningum til íbúa sinna með lækkun annarra gjalda sem eru til staðar í viðkomandi sveitarfélagi. Það eru ýmis önnur gjöld sem íbúar sveitarfélaga borga og hægt er þá að lækka.