146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

120. mál
[19:29]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég og hv. þingmaður erum vissulega ekki sammála í þessu máli enda á sitt hvorum endanum í pólitíkinni svo það væri kannski svolítið einkennilegt ef við sameinuðumst þarna, þó að við eigum örugglega eitthvað sameiginlegt í málum sem lúta að landsmálum.

Mér finnst ekki að sveitarfélög eigi að byggjast þannig upp að einhver sveitarfélög í landinu verði eins konar skattaskjól. Mér finnst það ekki vera neitt til að stefna að eða það eigi að ýta undir slíkt. Lögbundnar skyldur eru miklar á sveitarfélögum. Auðvitað er tilhneiging til þess að stærstu sveitarfélögin séu oft með þyngstu útgjöldin og þyngstu þjónustuna og standa sig þar en það kostar peninga. Þess vegna þurfa þau oftar en ekki að nýta tekjustofna sína til fulls. En það er vissulega svigrúm á milli lágmarksútsvars og hámarks. Reykjanesbær fékk leyfi til að hækka umfram hámarksútsvar. Það kom nú kannski ekki til af góðu. Þar var fjármálastjórnin hjá Sjálfstæðismönnum þannig að allt fór í þrot. Það er kannski ekki til fyrirmyndar hvernig það sveitarfélag var rekið, það seldi frá sér allar eignir og allar mjólkurkýr þar til það stóð uppi slyppt og snautt og sat uppi með að þurfa að skattleggja íbúana enn þá meira. Það er nú oft það sem frjálshyggjumenn og Sjálfstæðismenn vilja gera, að þjóðnýta tapið og hirða svo gróðann þegar hann verður. En þegar það verður tap þá á að þjóðnýta það og hirða gróðann. Það er ekki það sem mitt pólitíska nef segir að eigi að gera.