146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

orð ráðherra um fjármögnun samgönguáætlunar.

[10:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja mál mitt á því að segja að mér finnst leitt hve miklu uppnámi orð mín hafa valdið og sérstaklega þegar ég heyri umræður þar sem menn virðast kannski vera að mestu leyti efnislega sammála í málinu og umræðan snýst að mestu leyti um orðalag. Ég heyri að mörgum hefur verið heitt í hamsi. Ég ætla að fá að vitna, með leyfi forseta, í hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé sem var í viðtali við Fréttatímann 4. mars 2017, í grein sem heitir „Viðsnúningur á 71 degi“. Þar segir hann að greinilegt sé að samgönguáætlun hafi verið innantómt kosningaplagg.

Hann segir síðar í sama viðtali:

„Þetta eru því hrein og klár svik og við ætlum ekki að taka því þegjandi og hljóðalaust.“

Það er því greinilegt að ýmsum hefur þótt þetta mál þess eðlis að ástæða væri til þess að nota stór orð.

Ég hygg að málefnið sem við erum hér með sé þess eðlis að eðlilegt sé að við horfum á aðdragandann, þ.e. að skömmu fyrir samþykkt samgönguáætlunar var samþykkt fjármálaáætlun. Hún var samþykkt 18. ágúst. 12. september var samgönguáætlun samþykkt. Í fjármálaáætluninni var ekki svigrúm fyrir þessa samgönguáætlun og það vissu menn á þeim tíma. Þetta er það sem ég hef verið að benda á í samtali við þennan fjölmiðil og gekk svo sem ekki verra til en það. En þá voru ekki 71 dagur heldur 55 dagar sem liðu þar á milli og það var hið sama Alþingi. (Gripið fram í.)