146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

afnám hafta.

[10:45]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég deili áhyggjum hæstv. ráðherra og fleiri sem komið hafa fram í fjölmiðlum og ríkisstjórn af áhrifum af vaxandi styrk krónunnar á efnahagslífið. Ein af tillögum til úrbóta í því efni sem kom frá nefnd skipaðri af fyrrverandi ríkisstjórn var m.a. að afnema höft af almenningi og fyrirtækjum í landinu. Margir hafa orðað það þannig að nú séu kjöraðstæður til þess.

Því spyr ég efnahags- og fjármálaráðherra: Hvenær má vænta þess að höft verði afnumin af almenningi og fyrirtækjum í landinu í samræmi við áætlun í málum hafta frá júní 2015?

Það má líka spyrja hvort leynifundirnir við vogunarsjóðina sem ekki tóku þátt í útboðinu í júní 2016 en eru núna sannarlega lokaðir inni og valda ekki efnahagslegum óstöðugleika trufli ferlið.

Það er nefnilega ekki ljóst í ljósi orða hæstv. forsætisráðherra við fyrirspurn í síðustu viku hvort það sé einhugur í ríkisstjórninni um það hvort fylgja eigi eftir ferlinu um afnám hafta, eða hvort nú eigi að verðlauna þá sem rætt var við á leynifundi stjórnvalda, þá vogunarsjóði sem erfiðastir og harðastir hafa verið í andstöðu við endurreisn íslensks efnahagslífs.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann geti upplýst okkur um þær viðræður, hvort þar sé verið að bjóða þeim aðilum einhver önnur kjör og betri en öðrum.

En aðalspurningin er þessi: Hvenær má vænta afnáms hafta af almenningi og fyrirtækjum í landinu sem m.a. gæti hjálpað til við mótvægisaðgerð við sífelldri styrkingu íslensku krónunnar?