146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

afnám hafta.

[10:49]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Svo ég noti nú sama orðfæri og hæstv. ráðherra notaði hér í fyrri fyrirspurn þá var þetta nánast ekkert svar. Það eru engar skýrar áætlanir uppi um hvenær það afnám á almenning og fyrirtæki geti orðið, en allir eru sammála um að nú sé besta tækifærið og er kannski búið að vera í allnokkurn tíma.

Því ítreka ég spurninguna um það hvenær það gæti orðið að mati ráðherrans. Á næstu vikum? Næstu mánuðum? Og einnig spyr ég hvort þessi samskipti við vogunarsjóðina séu að trufla þá ákvörðun.

Kannski má bæta einni spurningu við: Hvenær má vænta frá ráðherra eða ríkisstjórn, hæstv. ráðherra, viðbragða ríkisstjórnarinnar vegna gengisstyrkingar krónunnar, vegna þess hóps sem skilaði af sér einum níu tillögum? Eða hyggst hæstv. ráðherra og ríkisstjórn einhvern veginn ætla að bíða, (Forseti hringir.) sitja þetta mál af sér og vona það besta, eins og virðist vera með marga þá stefnu sem ríkisstjórnin stendur fyrir þessa dagana?