146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

markaðar tekjur ríkissjóðs.

[10:59]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Miklir menn erum við, Hrólfur minn, að við skulum leggja lykkju á leið okkar hér í svari við fyrirspurn til að snúa út úr orðum annars þingmanns. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra gerði það fyrr í þessum umræðum, hann vitnaði í orð mín í viðtali þar sem ég var að tala um það að þeir hv. þingmenn sem höfðu samþykkt bæði samgönguáætlun og síðan fjárlög hlytu að líta á samgönguáætlun sem marklaust kosningaplagg. Það eru ellefu þingmenn hæstv. ráðherra til upplýsingar, þar af eru þrír samráðherrar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Ég er betur alinn upp en svo að ég kalli þá samráðherra hæstv. fjármálaráðherra siðlausa þótt ég skeyti atviksorðinu „nánast“ þar á undan.

Mig langar að ræða annað við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, en þó þetta viðtal einnig því að þar sagði hæstv. ráðherra aðspurður um bensíngjöld og olíugjöld að það væru engir afmarkaðir tekjustofnar lengur, allir skattar færu í ríkiskassann. Með leyfi forseta:

„Nú er það reyndar þannig að það er ekki lengur afmarkaðir tekjustofnar, þ.e. bara allir skattar fara í ríkiskassann og svo útdeilum við því.“

Mig langar að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort hann hafi heyrt minnst á lög nr. 120/2012, þar sem segir í 12. gr., með leyfi forseta:

„Verkefni Vegagerðarinnar og rekstur skal fjármagna með mörkuðum tekjum og beinum framlögum úr ríkissjóði. Til markaðra tekna teljast sérstakt bensíngjald, olíugjald, kílómetragjald og vitagjald.“

Væri ekki ráð, hæstv. ráðherra, að hækka þessi gjöld, ekkert nánast með það, einfaldlega hækka þau þótt ekki væri nema til samræmis við verðlagsþróun undanfarinna ára og tryggja þannig aukin framlög til vegaframkvæmda í stað þess að þeyta ásökunum í allar aðrar áttir um siðleysi og stjórnleysi?