146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

markaðar tekjur ríkissjóðs.

[11:03]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Það er gott að hæstv. ráðherra þykir leitt að snúa út úr orðum annarra en þó ekki leiðara en svo að hann heldur því áfram í sömu ræðu. Ég var ekkert að kalla eftir því að gerðar yrðu lagabreytingar á þessu. Ég var einfaldlega að benda á að ráðherra hefði farið með rangt mál. Það er gott að hæstv. ráðherra viðurkennir að þegar hann sagði að þessi lög væru ekki í gildi þá var það rangt.

Á persónulegu nótunum langar mig að ráðleggja hæstv. ráðherra eftirfarandi:

Þegar maður gerir mistök, segir eitthvað sem maður á ekki að segja, fer með rangt mál, þá er maður maður að meiri að viðurkenna það bara og biðjast afsökunar. Um það snýst það að almannahagsmunir séu umfram sérhagsmuni, sem er slagorð sem hæstv. ráðherra ætti að kannast við.

Mig langar í lokin að spyrja hæstv. ráðherra um bréf sem allir þingmenn Norðausturkjördæmis skrifuðu samgönguráðherra þar sem þingmennirnir telja allir sem einn óásættanlegt að nýframkvæmdafé sé með öllu þurrkað út til Dettifossvegar. Mig langar að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort hann sé sammála sjálfum sér þegar hann skrifaði undir þetta bréf.