146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

aðgangsstýring í ferðaþjónustu.

[11:10]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir að vekja máls á þessum mikilvægu viðfangsefnum, þolmörkum, sjálfbærni og aðgangsstýringu á náttúrusvæðum. Ég veit að hv. þingmaður hefur þekkingu og skilning á málaflokknum sem er góður grundvöllur umræðu um þessi stóru mál og get í raun tekið undir nánast allt sem hv. þingmaður fór yfir.

Ísland er áfangastaður sem byggir fyrst og fremst á aðdráttarafli oft viðkvæmrar náttúru og menningu fámennrar þjóðar. Á þessu mikla vaxtarskeiði íslenskrar ferðaþjónustu er brýnt að tryggja sjálfbærni greinarinnar til framtíðar, efnahagslega, náttúrulega og félagslega. Okkur hefur tekist vel til við að taka á móti ferðamönnum en innviðir hafa ekki fylgt vextinum nægilega hratt eftir. Fyrirsjáanlegt er að fjölgun ferðamanna haldi áfram þótt líklega muni hægja á vextinum, þótt við höfum svo sem haldið það í dágóðan tíma. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á sjálfbæra nýtingu auðlinda og uppbyggingu innviða sem er nauðsynleg til að tryggja að þessi grein haldi áfram að þróast í sátt við náttúru og samfélag. Langtímastefna um sjálfbæra ferðaþjónustu kallar á áreiðanlega og alþjóðlega samanburðarhæf gögn og mælikvarða sem nokkuð vantar upp á að séu fullnægjandi. Fyrir því hef ég talað. Er ætlunin m.a. að þróa sjálfbærni vísa og bæta svæðisbundna tölfræði sem hefur skort. Ein tegund rannsókna sem aukið fé hefur verið veitt í á síðustu árum er þolmarkarannsóknir sem gefa skýrari mynd en áður af stöðu mála hvað varðar þolmörk ferðamanna og íbúa umhverfis.

Heilt á litið er ánægja ferðamanna með upplifun sína hér á landi mjög mikil og íbúar eru almennt jákvæðir í garð ferðamennskunnar. Þó eru vissulega vísbendingar um að upplifun ferðamanna á ákveðnum vinsælum ferðamannastöðum, svo sem Geysi, Þingvöllum og Jökulsárlóni, sé að einhverju leyti farin að skerðast vegna ástands göngustíga, aðstöðuskorts og ferðamannafjölda. Nauðsynlegt er að tryggja fjármögnun á ítarlegri rannsóknum á þessum þáttum sem grundvöllur að frekari ákvarðanatöku.

Rannsóknir ber einnig að nýta til ákvarðanatöku og til þess að gera áætlanir, svo sem stefnumótandi stjórnunaráætlanir í ferðaþjónustu sem nú er í vinnslu. Í þeim verða áfangastaðir ferðamanna skilgreindir og skipulagðir í hverjum landshluta í samráði við heimamenn og með tilliti til þolmarka ferðamennsku.

Ég bind vonir við þessa vinnu sem og landsáætlun um uppbyggingu innviða vegna álags af völdum ferðamennsku sem umhverfis- og auðlindaráðherra vinnur að. Með þeim á uppbygging á ferðamannastöðum að vera skilvirkari og vandaðri. Velja þarf hvaða staðir eiga að byggjast upp sem fyrirmyndarstaðir með mikla þjónustu og hækka þar með þolmörk þeirra og á hvaða stöðum er æskilegra að takmarka uppbyggingu til þess að Ísland höfði áfram til fjölbreyttara en verðmætari hópa ferðamanna.

Á vinsælum og viðkvæmum stöðum þarf að stýra aðgenginu eins og við á til að vernda náttúru og minjar, dreifa álagi og bæta öryggi. Þeir sem bera ábyrgð á og hafa með höndum umsjón með hverjum stað fyrir sig eru almennt best til þess fallnir að meta hvernig þessari stýringu er háttað í krafti þekkingar sinnar á aðstæðum á hverjum stað. Slíkri stýringu má ná fram með ýmsum leiðum, svo sem göngupöllum, merkingum, fræðslu, aukinni landvörslu og stýringu á borð við einstefnu gönguleiða. Ég tel þó að við þurfum að ganga lengra á stöðum þar sem farið er að reyna á þolmörk og stýra aðgenginu með ákveðnari aðgerðum í samráði við ábyrgðar- og umsjónaraðila á hverjum stað. Þar koma fjöldatakmarkanir og/eða gjaldtaka til greina. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er ekki nóg alls staðar að koma á fót einhverri gjaldtöku vegna þess að það getur aðeins verið hluti af aðgangsstýringu.

Eitt af því sem kemur til skoðunar er að koma á svipuðu aðgangsstýringarkerfi og í fremstu þjóðgarðsstofnunum erlendis þar sem gjöld eru innheimt fyrir afnot af takmarkaði auðlind sem gerir stöðunum kleift að stýra umferð og afla tekna. Þannig axla fyrirtækin ábyrgð í þágu sjálfbærnimarkmiða í samstarfi við ríkisvaldið og það á samkeppnisgrundvelli en ekki á of íþyngjandi hátt.

Það sem við ræðum hér og eins og menn vita er auðvitað líka á forræði annarra ráðherra, svo ég nefni það. Stýring svæða í eigu sveitarfélaga og einkaaðila á í mínum huga að vera sem mest á forræði þeirra. Til að svo megi verða þarf m.a. að styrkja svæðisbundið stoðkerfi ferðaþjónustu og finna leiðir til þess að sveitarfélög fái auknar tekjur af greininni til þess að standa undir nauðsynlegri þjónustu.

Margumrædd bílastæðagjöld eru eitt verkfæri í því sambandi en ekki nóg. Slík innheimta er þegar komin á á Þingvöllum og mun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra leggja fram frumvarp á næstunni sem heimilar hana í dreifbýli.

Loks vil ég nefna mikilvægi þess að dreifa ferðamönnum og létta álagi af þéttsetnari svæðum. Meðal þess sem ríkisvaldið getur gert í því sambandi er að byggja upp greitt samgöngunet. Nú hefur Flugþróunarsjóður t.d. verið stofnaður og nýlega voru reglur hans rýmkaðar til að styrkja einnig flug sem millilendir t.d. á Keflavíkurflugvelli en heldur síðan áfram til Akureyrarflugvallar eða Egilsstaðaflugvallar.

Hæstv. forseti. Hraður vöxtur ferðaþjónustunnar að undanförnu kallar á að einmitt þau mál sem hv. þingmaður dregur hér fram verði tekin fastari tökum. Þess vegna fagna ég þessari umræðu og vænti þess að hún verði gott innlegg í þá vinnu sem nú stendur yfir.