146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

aðgangsstýring í ferðaþjónustu.

[11:16]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Í mínum huga er það alveg ljóst að aðgangsstýring er nauðsynleg. Fyrir því vil ég færa ýmis rök. Í fyrsta lagi náttúrunnar vegna. Við þurfum að hlífa henni við ágangi þar sem hann vill verða of mikill. Í öðru lagi þurfum við að huga að öryggi ferðamanna. Í þriðja lagi þurfum við að viðhafa aðgangsstýringu af efnahagslegum ástæðum. Við verðum að koma á skattheimtu eða gjaldtöku af ferðamönnum með einhverju móti, hvað svo sem hún kallast. Við verðum að hraða innviðauppbyggingu um land allt svo jafna megi öll þau neikvæðu áhrif jafnt sem jákvæðu áhrif sem gríðarlegur fjöldi ferðamanna hefur á íslenskt hagkerfi. Þetta verðum við að gera jafnvel með kvótasetningu á viðkvæmustu stöðunum, eins og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kom inn á.

Ég vil hvetja ráðherrann til góðra verka og ég vil hvetja ráðherrann til skjótra viðbragða. Það er nefnilega þannig að forveri ráðherrans dró lappirnar svolítið í þessum málum og ríkisstjórnin öll, sú sem sat hér síðast. Það er synd hvernig farið var með tækifæri sem fóru forgörðum þá.