146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

aðgangsstýring í ferðaþjónustu.

[11:18]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Aðgangsstýring er óneitanlega svolítið sérstakt orð að viðhafa um frjálsa för fólks, erlendra ferðamanna, um landið okkar. En við vitum öll hvað er átt við hér. Samkvæmt nýrri skýrslu sem Íslandsbanki kynnti í morgun er því spáð að um 2,3 milljónir ferðamanna muni koma til landsins á þessu ári. Það er 30% aukning frá því í fyrra. Verði spáin að veruleika er um að ræða mestu aukningu á einu ári sem um getur, eða fjölgun upp á um 530 þús. manns. Samkvæmt því er viðbúið að næsta sumar verði hér ein af hverjum fimm manneskjum erlendur ferðamaður.

Viðbrögð manns við þessari spá eru einhvern veginn að þetta séu bæði mjög jákvæðar en jafnframt verulega ógnvekjandi fréttir eða sýn, sem þarf að bregðast við. Ferðaþjónusta á Íslandi hefur skapað sér sess sem ein helsta og verðmætasta atvinnugreinin okkar. Líkt og aðrar af okkar helstu atvinnugreinum byggir hún á náttúruauðlindum þjóðarinnar, eign núlifandi kynslóða og þeirra sem koma á eftir okkur. Við þurfum að vanda vel til verka þegar við stöndum frammi fyrir því að byggja þessa atvinnugrein enn frekar upp í sátt við fólk og náttúru. Þar er aðgangsstýringin mikilvæg en sú skýring getur, eins og hér hefur komið fram, falist í svo mörgu; uppbyggingu samgöngukerfis, fjölbreytni í menningarþjónustu o.s.frv.

Við vitum að ferðamennirnir sem koma hingað hafa áhuga á náttúrunni okkar. En þeir koma líka vegna menningarinnar, hafa áhuga á matnum okkar og sögu þjóðar. Í öllum þeim þáttum eigum við töluvert inni hvað varðar upplýsingamiðlun til ferðamanna og uppbyggingu innviða hins vegar. Innan yfirstjórnar ferðamála er nú unnið að verkefnum sem stuðla að samhæfingu á stýringu greinarinnar. Þar er af nógu að taka og listinn er langur en ég nefni sérstaklega dreifingu ferðamanna um landið allt og síðan skynsamlega gjaldtöku, t.d. bílastæðagjöldin. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur öll að kortlagning og í kjölfar framkvæmd þessara verkefna (Forseti hringir.) verði ofarlega á forgangslista stjórnvalda.