146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

aðgangsstýring í ferðaþjónustu.

[11:24]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Hér ræðum við aðgangsstýringu að ferðamannastöðum. Þegar sú umræða heyrist dettur mér óneitanlega í hug frænka mín og maðurinn hennar sem bjuggu í fínu húsi hér vestur í bæ. Það voru tvö herbergi í húsinu sem aldrei mátti koma inn í, það voru húsbóndaherbergið og betri stofan. Þangað þorði bara enginn að fara óboðinn. Húsbóndaherbergið var aldrei notað, ekki sinni einu sinni af heimilisföðurnum, og inn í betri stofuna var mönnum hleypt á aðfangadagskvöld og jafnvel á jóladag. Samt voru þau meðal fallegustu herbergjanna í öllu húsinu.

Ástæða þess að við ræðum hér aðgangsstýringu er m.a. sú að hingað kemur gífurlegur fjöldi ferðamanna, en líka vegna þess að okkur hefur ekki lánast að laða ferðamenn um allt land. Við troðum nefnilega á hverju ári um tveimur milljónum ferðamanna í gegnum sama þrönga hliðið þó að við vitum að það leiði til ofbeitar á afmörkuðu svæði landsins á meðan stór hluti landsins er vannýttur. Þegar vandræðin eru orðin ljós, hvað gerum við þá? Jú, við bætum í og byggjum á nákvæmlega sama staðnum og hrækjum svo eitthvað í umhverfi þessara staða sem eru undir áníðslu.

Ég verð satt að segja meira og meira hissa á því að Landvernd og önnur umhverfisverndarsamtök skuli ekki löngu vera búin að hella sér í baráttuna fyrir því að opna fleiri fluggáttir inn í landið. En það er auðvitað gleðilegt, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, að við erum farin að velta þessum hlutum fyrir okkur, m.a. með stofnun Flugþróunarsjóðs og vitundarvakningu ferðamálayfirvalda. Við eigum nefnilega dýrðlegar perlur út um allt land, allt frá Hornströndum að Hallormsstað og Ásbyrgi til Hvítserks. Við þurfum að opna þessa töfraveröld fyrir ferðamönnum. Það er skilvirk byggðastefna. Þar liggur ekki síst óinnleystur hagvöxtur landsbyggðarinnar

Ég ætla svo í seinni ræðu minni (Forseti hringir.) að koma aðeins inn á það hvernig við eigum að byggja þetta upp.