146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

aðgangsstýring í ferðaþjónustu.

[11:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ferðamannasvæði á Íslandi eru misstór, misaðgengileg og misviðkvæm. Engin ein lausn hentar alls staðar, en þó ættum við að geta verið sammála um ákveðin viðmið. Stefna Pírata í ferðamálum er skýr. Við viljum langtímaáætlun um skipulag og uppbyggingu þar sem áhersla er á sjálfsákvörðunarrétt nærsamfélagsins. Við leggjum áherslu á góða upplifun ferðamanna, að ávinningur af ferðaþjónustu dreifist til nærsamfélagsins og nýtist við náttúruvernd. Áhersla er á menntun í ferðamálafræðum, leiðsögn og landvörslu.

Píratar telja gistináttagjald vera ákjósanlega leið til tekjuöflunar og skuli það renna beint til sveitarfélaga. En sú staða er nú uppi að gera þarf mikið átak í uppbyggingu ferðamannastaða vegna ágangs til að tryggja öryggi, náttúrulegt umhverfi og möguleika á afturhvarfi til náttúrulegs umhverfis. En til þess að dreifa álagi eru fleiri möguleikar. Við getum kynnt minna þekktar náttúruperlur, björgunarsveitir þurfa einnig að fá aukinn stuðning og að náttúruperlur séu síðan almennt í eigu allra landsmanna, alla vega nærsamfélagsins. Síðast en ekki síst þurfum við að tryggja almannaréttinn, að sátt sé um hvernig almannaréttinum er hagað, og að almenningssamgöngur milli allra þéttbýlisstaða séu viðunandi. Það er gríðarlega mikilvægt.

Við erum nefnilega ekki aðeins að tala um landið okkar heldur land barna okkar, jörð barna okkar og barnabarna. Vera okkar mannfólksins á þessari jörð telur um sex mínútur og við hérna inni munum ekki ná að lifa fjórðung úr sekúndu í alheimsdagatalinu, eins og Carl Sagan lagði það upp í Cosmos. Við erum skammlífir áhorfendur í jarðsögulegu samhengi en okkur hefur jafnframt tekist að móta umhverfi okkar að eigin þörfum. Við þurfum hins vegar að athuga hvort við gerum óafturkræfar breytingar, (Forseti hringir.) hvort sem er fyrir næstu kynslóðir eða jörðina.