146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

aðgangsstýring í ferðaþjónustu.

[11:38]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka svör og góðar en því miður stuttar umræður. Það kveður við breyttan tón hjá hæstv. ferðamálaráðherra miðað við viðtal í Fréttablaðinu um daginn. Þar ræddi hún fyrst og fremst um bílastæðagjöld sem aðgangsstýringu en nú er hún búin að opna á þolmörk og fleira og það er mjög gott. Ég hef rætt mjög skýrt um ítölu á fjölmörgum svæðum. Ég tel að það stuðli sjálfkrafa að dreifingu ferðamanna um landið en það gerir auðvitað líka uppbygging á nýjum stöðum.

Auknar rannsóknir eru ekki lengur fyrirstaða. Við höfum töluvert af þeim, þær eru langtímaverkefni en nú þarf aðgerðir þegar í stað. Við þurfum ekki að bíða eftir frekari rannsóknum. Jákvæðnin er tekin að dala, ég fullyrði það, hjá íbúum sumra staða og ferðamönnunum sjálfum. Ein orsökin er mikil ánauð á samfélög og náttúru og ég fullyrði að landsskemmdir eru orðnar verulega miklar á allt of mörgum stöðum.

Hvað fjármögnun snertir eru bílastæðagjöldin auðvitað bara dropi í hafið. Þau eru þjónustugjöld. Við erum að ræða um komugjöld, 2.000 kr. komugjald á hvert höfuð myndi gefa okkur 4–5 milljarða. Það eru líka fleiri gjöld, þar á meðal gistináttagjald sem þarf að vera hlutfallstala af verði gistingar. Við erum að tala um hugsanlegar breytingar á virðisaukaskatti, bein framlög hins opinbera og fleiri innkomugáttir. Þetta er allt hárrétt.

Hæstv. ráðherra nefndi líka almannarétt í viðtalinu í blaðinu, talaði um að grípa til takmarkana á aðgengi einstaklinga að almenningi. Þetta eigum við alveg eftir órætt. Hún kom ekki að ráðuneyti ferðaþjónustu, sem ég tel brýnt, og heldur ekki að endurskoðun laga í ferðaþjónustunni sem ég nefndi svo sem ekki en eru mjög brýn. (Forseti hringir.) Hvað Þríhnúkagíginn snertir þarf að ræða hvort rétt sé að búa til lítil jarðgöng til hliðar inn í gíginn þannig að margfalt fleiri geti notið hans en nú er.