146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

vopnalög.

235. mál
[12:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ráðherrann fór aðeins yfir nöfn sumra þeirra efna sem hér stendur til að setja á válista, nefndi þar vetnisperoxíð og aseton sem hvort tveggja geta nýst við sprengiefnagerð en hafa líka talsvert fleiri lögmæt not, nýtast t.d. við efnahvörf á vísindastofum og í vægari blöndum má nota vetnisperoxíð til að ná jafn íðilfögru ljósu hári og prýðir ráðherrann, fyrir okkur sem ekki höfum þann háralit. Þess vegna langar mig að spyrja hvort það valdi ekki einhverjum vandræðum að í frumvarpinu sé lagt til að viðmiðið sé almennur borgari, hugtak sem ég fæ ekki betur séð en að sé nýmæli í lögum. Ef við færum þetta yfir á algengara hugtak sem er almenningur þykir mér það jafnvel vera of þröngt því að þar erum við að tala um allan þorra fólks. Myndi það þýða að bændur þyrftu að fá sérstakt leyfi til að versla þessa vöru eða vísindamenn eða snyrtistofur eða hvað það er? Mér sýnist þetta jafnvel vera röng innleiðing á gerðinni, því að þar er almennur borgari skilgreindur svona, með leyfi forseta:

„Sérhver einstaklingur sem á í viðskiptum í öðru skyni en vegna atvinnugreinar sinnar, viðskipta eða starfsgreinar.“

Þarna er tekið utan um þá hópa sem eiga lögmæta heimtingu á þessum efnum og þeir ekki látnir fara undir sömu ströngu smásjá og sá sem skilgreindur er sem almennur borgari í gerðinni.

Ég spyr ráðherrann hvort það þyrfti annaðhvort að (Forseti hringir.) skilgreina þetta hugtak betur eða taka á einhvern annan hátt fram að hér sé ekki átt við að bara þeir sem ekki flokkast sem almennir borgarar, (Forseti hringir.) hverjir svo sem það nú eru, megi versla þessi efni eftirlitslausir.