146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

vopnalög.

235. mál
[12:08]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég get alveg tekið undir það að hugtakið almennur borgari sé kannski svolítið ankannalegt í lögum í landi sem hefur ekki her. Hugtakið almennur borgari er notað einmitt sérstaklega til að aðgreina almenna borgara frá t.d. þeim sem sinna herlegum skyldum á einhverjum tíma. Það er alveg rétt ábending líka að það gæti verið tilefni til að afmarka þetta frekar með þeim hætti sem hv. þingmaður las hér upp og vitnaði þar til tilskipunarinnar. Ég hvet nefndina til að skoða það sérstaklega.

Það liggur alveg fyrir að sum af þessum efnum eru jafnvel til inni á heimilum manna í litlum mæli en það er auðvitað tilgreint vel í frumvarpinu og gert ráð fyrir að þarna sé verið að greina á milli þeirra sem kaupa þetta í litlu magni annars vegar og hins vegar í miklu magni. Og það er rétt að þeir sem stunda tiltekinn rekstur, eins og t.d. bændur, kunna að þurfa að fá undanþágu frá bannákvæðum um kaup á efnum. Það er gert ráð fyrir að það yrði gert með annaðhvort almennum hætti, t.d. í reglugerð sem er þá verið að opna fyrir í þessu og er frumvarpið nauðsynleg forsenda þess að ráðherra geti sett reglugerð með almennri undanþágu, eða þá í sérstökum tilvikum ef svo ber undir. En ég hvet nefndina til að skoða þetta sérstaklega, hvort ástæða sé til að skilgreina betur, þrengja frekar hugtakið almennir borgarar.