146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

vopnalög.

235. mál
[12:10]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum svarið og vil spyrja út í eitt smáatriði enn. Hér er tekinn upp ákveðinn nýr eftirlitsgeiri. Ákveðnu hlutverki er vísað inn til verslunarfólks; að meta hvað teljist grunsamleg viðskipti og koma ábendingum um það á framfæri. Ég vil spyrja hvort við séum með einhver fordæmi fyrir slíku, að gera verslunarfólk að efnalöggum, framlengingu á framkvæmdarvaldinu. Eins langar mig að spyrja um það að þessar efnalöggur sem eiga þá að starfa í verslunum, þeim er skylt að tilkynna grunsamlegu viðskiptin, hvernig svo sem þau eru skilgreind, skylt að tilkynna þau til lögreglustjóra, tollstjóra eða annars tengiliðar á landsvísu. Þetta þykir mér frekar óljóst. Væri ekki einfaldara bara að velja eina til þess bæra opinbera stofnun og tiltaka hana? Mér þykir lögreglan liggja beint við. Annar tengiliður á landsvísu, án þess að það sé skilgreint, gæti nú verið hver sem er og spurning hvort ráðherrann færi þá að fá ábendingar frá efnalöggunum í BYKO og Olís eða hvað það nú er.