146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

útlendingar.

236. mál
[12:21]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið, sem gefur mér líka tækifæri til að leiðrétta það sem fram kom í mínu máli. Ég hökti svolítið í ræðunni, kannski að hv. þingmaður hafi tekið eftir því, vegna þess að það hafði slæðst inn villa í ræðuna hjá mér. Varðandi ákvæðið sem lýtur að þessu, að kæra fresti ekki réttaráhrifum, og við höfum sett tvisvar sem bráðabirgðaákvæði — með frumvarpinu er einmitt verið að leggja til að það ákvæði verði ótímabundið í lögunum. Það er einmitt ekki verið að gera það að enn einu bráðabirgðaákvæðinu tímabundið heldur ótímabundið.

Hvað spurninguna varðar um möguleika okkar á að auglýsa í þessum löndum þá er rétt sem kom fram að nokkru leyti í andsvari hv. þingmanns að vandi okkar í þessum málum stafar í raun frá mjög afmörkuðum hópi manna. Það verður bara að segjast eins og er að hann er frá Makedóníu og Albaníu. Það eru þá Makedóníu-Albanar helst sem hafa leitað hingað með tilhæfulausar umsóknir. Við í dómsmálaráðuneytinu höfum ekki verið að vinna að því með neinum hætti að auglýsa fyrirkomulag mála hér á Íslandi. En hins vegar teljum við að þetta ákvæði, að kæra fresti ekki réttaráhrifum, skili þeim árangri sem við viljum ná og er mögulega farið að sýna sig í dag, sem er að takmarka og fækka og helst útrýma algerlega tilhæfulausum hælisumsóknum. Það skiptir mjög miklu máli að lagaramminn hér sé skýr og mönnum sé það alveg ljóst að hverju þeir ganga þegar þeir koma hingað með tilhæfulausar hælisumsóknir. Það er einmitt þess vegna sem þetta frumvarp er svo mikilvægt. Þá erum við að festa það í sessi að hægt sé að snúa við umsækjendum fljótt og örugglega um leið og Útlendingastofnun hefur synjað umsókn um hælið.