146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

útlendingar.

236. mál
[12:23]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta svar. Mig langar þá til að vita hvert viðhorf hæstv. dómsmálaráðherra er gagnvart því t.d. að auglýsa, gagnvart því að fræða almenning í þessum löndum um aðstöðuna á Íslandi. Eins og kom fram í fyrra andsvari mínu eru sumar umsóknirnar náttúrlega ekki tilhæfulausar. Það er ástæða fyrir því að ákveðnir aðilar koma hingað til lands. Ég vænti þess að þeir fái þá viðeigandi málsmeðferð og þeirra mál sé tekin trúanleg, eins og t.d. einstaklinga sem hafa flúið hingað til lands vegna blóðhefndar eða vegna þess að þeir eru pólitískt ofsóttir í þessum löndum. Ég spyr hvort það sé ekki í raun og veru réttlátari lausn að auglýsa og einfaldari að vissu leyti og hvort hæstv. dómsmálaráðherra þurfi ekki að beita sér fyrir því að utanríkisráðuneytið fari í það mál. Það ætti nú ekki að kosta neitt sérstaklega mikið. Það ætti að vera tiltölulega einföld aðgerð.

Ég veit að utanríkisráðuneytið hefur áður þurft að leiðrétta misskilning, ákveðnar mýtur sem hafa gengið um aðstæður á Íslandi og aðgengi erlendra ríkisborgara að íslensku velferðarkerfi og þar fram eftir götunum. Ég spyr því hvort ekki sé tilefni til að gera það núna, af því að þetta ákvæði átti að vera til bráðabirgða. Mér þykir leiðinlegt að sjá að vilji ráðuneytisins er núna að festa það í sessi og gera ótímabundið. Mig langaði til að vita hvort einhverjar aðrar lausnir væru í boði.