146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

útlendingar.

236. mál
[12:28]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum í raun tvö óskyld mál þótt þau séu bæði í sömu lögum. Ég ætla fyrst að víkja nokkrum orðum að seinni hluta frumvarpsins, sem ráðherrann nefndi réttilega leiðréttingu á prentvillu af því að það var engan veginn vilji löggjafans að þrengja réttindi útlendinga með nýjum útlendingalögum. Það er því gott að þessi villa sé leiðrétt og falli úr lögum. Við megum samt alveg staldra við framkvæmdina síðustu vikur af því að staðan er sú að einhver fjöldi para hefur lent í því að Útlendingastofnun hefur tekið þessa prentvillu og túlkað hana eftir orðanna hljóðan eins þröngt og hægt er og ekki í hag útlendingsins. Þannig að fólk sem hefur mögulega verið í sambúð í ár en bara gift í mánuð, það par hefur ekki talist hafa verið í sambandi í 13 mánuði sem þar með hefði veitt erlenda makanum heimild til dvalarleyfis eins og var vilji löggjafans, heldur kaus Útlendingastofnun að túlka það svo að hún mætti velja annaðhvort sambúðartímann eða hjúskapartímann, þar með hefði þetta par sem hefði verið í sambandi í 13 mánuði í bókum Útlendingastofnunar aðeins verið hjón í mánuð og því mætti vísa helmingi þess pars úr landi. Þetta er framkvæmd sem ég held að ráðuneytið mætti kafa dálítið ofan í. Það mætti grennslast fyrir um það hversu mörg pör þetta hefur snert. Það mætti setja mál þeirra einstaklinga í algjöran forgang af því að við erum ekki bara að leiðrétta prentvillu, heldur erum við að leiðrétta það að opinber stofnun kom illa fram við þetta fólk. Þessu fólki á að kippa inn eins og þessi prentvilla hafi ekki átt sér stað. Það á að gerast strax og fella þetta úr lögum.

Þá að hinum hluta frumvarpsins sem snýr að því að hægt sé að vísa umsækjendum úr landi þótt kæruferli standi yfir, þ.e. að sú meðferð fresti ekki brottvísun.

Í góðu kerfi ætti þetta náttúrlega aldrei að vera spurning. Í góðu kerfi ættum við að geta unnið nógu hratt og vel úr málum til þess að hver einasti einstaklingur sem sækir um landvist eða hæli eða hvað það er til að komast hér inn í land fái fullnustu sinna mála hjá stjórnsýslunni á skjótan og öruggan máta þannig að þeir sem fá synjun á umsóknir sínar fái hana skjótt og á sanngjarnan hátt þannig að ekki myndist stafli af því sem heitir svo fallega „tilhæfulausar umsóknir“, stafli sem aftur fær mann til að velta fyrir sér hvort stofnunum hætti mögulega til að vinna of skjótt úr umsóknum. Við þekkjum það öll úr verkefnum sem við höfum sinnt að ef haugurinn fyrir framan okkur virkar óyfirstíganlegur þá hættir okkur til að stytta okkur leið. Í þessum viðkvæmu málum og ég segi viðkvæmum, þó að mögulega séu einhverjar tilhæfulausar umsóknir þarna inni á milli, þá eru þær umsóknir sem ekki eru tilhæfulausar mjög mikilvægar, bæði fyrir einstaklingana sem standa að baki þeim og fyrir ríkið sem ber ábyrgð á að veita þeim fullnægjandi afgreiðslu og skjól. Við megum aldrei slá af kröfum um réttláta málsmeðferð.

Ég set almennt í prinsippinu verulegt spurningarmerki við hugmyndina um lista yfir örugg ríki af því að þá erum við komin á þær slóðir — svo við notum bara orðanna hljóðan í lögunum, í 29. gr. sendur, með leyfi forseta:

„Með öruggu upprunaríki er átt við ríki þar sem einstaklingar eiga almennt ekki á hættu að vera ofsóttir eða sæta alvarlegum mannréttindabrotum.“

Eiga almennt ekki á hættu — undir þetta geta flest ríki fallið. Almennt á fólk ekki á hættu að vera ofsótt eða sæta alvarlegum mannréttindabrotum. En við verðum að skoða hverja umsókn og hvert tilvik fyrir sig sértækt. Þannig getur til dæmis, svo við tökum nýlegt dæmi, samkynhneigður Írani sem á yfir höfði sér dauðarefsingu í heimalandinu átt á hættu að vera ofsóttur í flóttamannabúðum á Ítalíu, þangað sem við sendum hann. Þannig gæti þess vegna kona sem myndi sækja um hæli frá Noregi, vegna þess að þar væri hún að kljást við eltihrelli sem norsku lögreglunni gengi ekkert að finna eða koma böndum á, þessi kona frá fullkomlega öruggu ríki almennt gæti persónulega í sínu einstaka dæmi verið í verulegri hættu á að vera ofsótt eða sæta alvarlegum mannréttindabrotum.

Ég legg bara á það ríka áherslu þó að við höfum þennan lista um örugg ríki í lagasafninu, þetta hugtak, þessa hugmynd, til brúks, að við notum hann ekki sem fjarvistarsönnun, sem afsökun fyrir því að komast undan því að hver einasti umsækjandi um landvist, um hæli, eða hvað það er sem fær fólk til að banka á dyr hér á Íslandi, að hver einasti einstaklingur fái réttláta meðferð og það sé öruggt að Útlendingastofnun setji ekki bara í gang eitthvert færiband og hendi fólki úr landi án þess að skoða málið nægjanlega ofan í kjölinn, eins og hún gerði þegar þingið setti prentvillu í lögin, eins og hún gerði þegar hún fór að vísa hjónum úr landi vegna þess að stofnunin kaus að túlka lögin eins þröngt og fræðilega mögulegt var.

Ég beini því til ráðherrans að gæta upp á þetta af því að vilji löggjafans við setningu útlendingalaga var, eins og ráðherrann kom ágætlega inn á, ekki að þrengja aðganginn að Íslandi heldur að tryggja fólki réttláta meðferð.