146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

120. mál
[13:30]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Það er heimilislegt á þessum þingfundi, einungis Píratar í salnum. (Gripið fram í.) — Ekki lengur þó.

Þetta frumvarp sem hér er lagt fram mætti allt eins kalla frumvarp um lögleiðingu skattaskjóla á Íslandi. Afleiðing þessarar lagabreytingar, ef af verður, verður sú að sumar fjölskyldur munu flytjast til þeirra sveitarfélaga þar sem útsvarsprósentan er lægst. Hér verður sumu fólki gefið færi á að leggja minna til samfélagsins hlutfallslega en aðrir. Hér verða sem sagt lögleidd skattaskjól á Íslandi, vissulega með meira gagnsæi en skattaskjólin í útlöndum en skattaskjól engu að síður. Þar munu íslenskir auðmenn og konur leita skjóls. Hugmyndin gengur í berhögg við samkennd og samhygð. Ríkasta fólk þjóðarinnar mun fyrst og fremst vera í aðstöðu til að gera þetta. Þetta snýst um þjónustu að stórum hluta. Það er nefnilega þannig að þjónustustig sveitarfélaga er mjög misjafnt. Í sumum sveitarfélögum eru stórar sumarhúsabyggðir en fámenn heilsársbúseta. Þar er lítil þörf fyrir skóla, svo dæmi sé nefnt. Í sumum er lítil eða engin félagsþjónusta eða heilbrigðisþjónusta. Önnur sveitarfélög hafa mjög takmarkaða innviði sem leiðir til þess að íbúar þeirra verða að sækja þjónustu af ýmsu tagi annað.

Sum sveitarfélög, sérstaklega þau fámennustu, hafa ekki bolmagn til að sinna fjölfötluðum einstaklingum sem þurfa kostnaðarsama umönnun og þjónustu, líkt og sagt hefur verið frá í fjölmiðlum. Fjölskyldur þeirra einstaklinga verða oftar en ekki að flytja búferlum til stærri sveitarfélaga. Þannig getur komið upp sú staða að fatlaðir einstaklingar og fjölskyldur þeirra neyðast til að búa í þeim sveitarfélögum sem hæsta útsvarið hafa, enda er sú þjónusta sem þeir þurfa á að halda einungis í boði þar. Hér er því verið að sá fræjum mismununar. Eflaust mætti tína til fleiri dæmi. Ég vil vitna í umsögn Sambands sveitarfélaga frá 4. desember 2014, en þá var þetta frumvarp síðast lagt fram, með leyfi forseta:

„Málið snýst því ekki um að bæta úr stjórnskipunarlegum annmörkum á sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga, heldur miklu frekar um það hvort ákveðinn hópur launafólks á íslandi skuli hafa möguleika á að sleppa að miklu eða öllu leyti við að greiða útsvar af launatekjum sínum þegar það tekur ákvörðun um að velja sér búsetu.

Þegar staða þessarar umræðu er skoðuð hjá öðrum norrænum ríkjum kemur í ljós að í viðkomandi lögum hvers lands um tekjustofna sveitarfélaga er alls staðar kveðið á um að lágmarksútsvar (sá hluti tekjuskatts einstaklinga sem rennur til sveitarfélaganna) sé lögbundið. Í Noregi er reyndar einungis eitt útsvarshlutfall en í öðrum norrænum ríkjum er alls staðar kveðið á um lágmark. Hins vegar skal bent á að í Danmörku er ekki kveðið á um hámarksálagningarhlutfall útsvars, öfugt við löggjöfina hér á landi.

Rökin fyrir þessari samræmdu pólitísku afstöðu okkar norrænu nágranna, sem íslensk löggjöf hefur einnig fylgt fram til þessa, eru þau að allir launþegar skuli greiða ákveðinn hluta af launum sínum til samfélagslegra verkefna eftir gildandi reglum þar um. Skiptir þá ekki máli hvernig fjárhagsleg staða sveitarfélagsins er að öðru leyti. Í nokkrum hinna Norðurlandanna hefur sú leið verið valin að ef tekjur sveitarfélags á hvern einstakling eru umfram ákveðið hlutfall yfir landsmeðaltali, þá greiðir viðkomandi sveitarfélag ákveðinn hluta þeirra tekna sem eru yfir þessum mörkum inn í sameiginlega sjóði. Þannig er reynt að stuðla að sem mestu jafnræði hvað varðar skatttekjur sveitarfélaga á hvern íbúa.

Tekjustofnar íslenskra sveitarfélaga eru útsvar, fasteignaskattur, greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og þjónustutekjur. Hlutfallsleg skipting þessara tekjustofna innbyrðis getur verið mjög mismunandi milli einstakra sveitarfélaga. Þar hefur áhrif bæði íbúafjöldi sveitarfélags svo og styrkur einstakra skattstofna.

Í þessu sambandi geta staðbundnar aðstæður ráðið miklu um styrk skattstofna. Þar skiptir mestu máli hvert greiðslur af fasteignaskatti vegna virkjunarframkvæmda renna. Einnig geta staðbundnar aðstæður haft þau áhrif að greiðslur fasteignaskatts af sumarhúsum vegi þungt hjá fámennum sveitarfélögum.

Þar sem fámenn sveitarfélög hafa miklar tekjur af álagningu fasteignaskatts gætu þær aðstæður skapast að þau gætu lækkað álagningarhlutfall útsvars verulega eða jafnvel niður í 0% ef lágmarksútsvar yrði afnumið með öllu. Það myndi skapa möguleika á innlendum skattaparadísum og tilheyrandi „gervibúsetu“ með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Íbúar þessara sveitarfélaga myndu því sleppa að miklu eða öllu leyti við að greiða útsvar af launatekjum sínum óháð upphæð launa.

Slíkt ójafnræði meðal sveitarfélaga myndi tvímælalaust hafa mikil áhrif á samvinnu sveitarfélaga að ýmsum héraðsbundnum hagsmunamálum. Þar til viðbótar myndi afnám lámarksútsvars að öllum líkindum draga úr áhuga viðkomandi sveitarfélaga til sameiningar við nágrannasveitarfélög.

Sambandinu hafa borist allnokkrar umsagnir frá sveitarfélögum, sem öll leggjast gegn samþykkt frumvarpsins.

Miðað við núverandi forsendur er því engin þörf fyrir afnám lögbundins lágmarksútsvars og leggst sambandið eindregið gegn þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpinu.“

Virðulegur forseti. Ef hv. flutningsmaður, þingmaðurinn Vilhjálmur Árnason, væri viðstaddur í dag myndi ég ráðleggja honum að gera eina breytingu á þessu frumvarpi sínu. Aðspurður í gær sagði hann að ekki væri hægt að afnema hámark útsvarsprósentunnar, það væri lögbundið og sveitarfélögin gætu ekki ákveðið slíkt. Ég ætlaði að ráðleggja honum að koma með þá breytingu inn í frumvarpið að setja hámarksprósentuna einfaldlega svo óhemjuuháa að það væri engin hætta á að sveitarfélögin myndu fara alla leið, við getum sagt 80%, þar með er þakið í raun ekki til staðar.

Virðulegur forseti. Ég leggst eindregið gegn þessu frumvarpi.