146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

120. mál
[13:38]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég verð að vekja athygli á því að hvorki frummælandi hv. þessa frumvarps né nokkur annar flutningsmanna eru viðstödd þessa umræðu. Hæstv. forseti er þingreyndari maður en ég, en ég verð að játa að mér finnst það afskaplega einkennilegt að ekki sýna mikla virðingu fyrir þeirri umræðu sem fram fer hér í þingsal um eigið mál. Ég velti því fyrir mér hvort umræðan í gær hafi kannski verið á þann veginn að hv. flutningsmenn hafi einfaldlega séð þann kostinn vænstan að hlaupast frá málinu og vera fjarri á meðan það er rætt. Í það minnsta finnst mér þetta töluvert mikil óvirðing. Er mér orðið tamara það orð á tungu en ég hélt að mér yrði áður en ég tók sæti á hinu háa Alþingi.

Ég held áfram frekar en gera þá kröfu að flutningsmenn verði fluttir hingað, þó ekki í böndum, en í það minnsta viljugir á svæðið, í því trausti að flutningsmenn muni setjast yfir upptökur af þessum umræðum eftir á. En það er náttúrlega ekki nema önnur hliðin á peningnum í umræðum í þingsal því að það hefði verið gaman að eiga orðastað við flutningsmenn um þetta mál.

Það er ýmislegt í máli hv. þm. Vilhjálms Árnasonar, fyrsta flutningsmanns frumvarpsins, sem kom fram í gær, sem staldra verður við og gera athugasemdir við. Hv. þm. Einar Brynjólfsson sem talaði hér á undan mér kom inn á ýmislegt af því og gerði vel, þar með talið varðandi hámarksútsvarið, sem ég leyfði mér að spyrja hv. fyrsta flutningsmann út í í gær. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Einari Brynjólfssyni að ef hv. fyrsti flutningsmaður hefur áhyggjur af því af því að það sé bundið í lög hverjar tekjur sveitarfélaga geti verið prósentulega séð í gegnum útsvar, þ.e. hver útsvarsprósentan sé, þá er einfaldast að hækka það þak eins og mögulegt er til að gefa sveitarfélögunum það sjálfdæmi, eins og hv. þm. Einar Brynjólfsson kom vel inn á.

Það verður að segjast eins og er að sú frelsisást sem svífur hér yfir vötnum, bæði í þessum frumvarpi og í máli hv. frummælanda, er aðeins á annan veginn, þ.e. að hægt sé að draga eins mikið úr skattheimtu og mögulegt er; og kjósi sveitarfélög það hafi þau frelsi til þess. Það er ekki á hinn veginn að ef sveitarfélög kjósa að hækka skattana hafi þau frelsi til þess. Þessi frelsisást hv. þingmanns — þetta er dálítið þvingað ástarsamband, verður að segjast, því að það er ekki eins og sveitarfélögin séu viljugur meðreiðarsveinn í þessari vegferð hv. þingmanns. Hv. þm. Einar Brynjólfsson kom inn á það að sveitarfélögin sem skiluðu inn umsögn hefðu meira eða minna, ef ekki bara öllsömul, lagst gegn þessu.

Hv. flutningsmaður kom inn á það í máli sínu að það gæti farið eftir stærð sveitarfélaga hvernig þau tækju í þessar hugmyndir. Það er vissulega áhugavert sjónarmið. Ég tek tvö af algjöru handahófi, af þeim sveitarfélögum sem skiluðu inn umsögn um frumvarpið þegar það var lagt fram á fyrri þingum; annars vegar Reykjavík, fjölmennasta sveitarfélag landsins, og hins vegar Hrunamannahrepp, þar sem búa um 800 manns. Bæði þessi sveitarfélög eru samdóma í því áliti sínu að frumvarpið geti orðið til mikils skaða verði það að lögum. Það heldur einfaldlega ekki vatni að nota fjölda íbúa í sveitarfélagi sem rök fyrir afstöðu þeirra. Sveitarfélögin leggjast almennt gegn þessu. Það er furðuleg árátta hjá hv. flutningsmönnum þessa frumvarps að reyna að þvinga þetta ofan í viðtakendur.

Af hverju leggjast sveitarfélögin gegn þessu? Mér fannst stundum á máli hv. flutningsmanns í gær að það væri eins og hann skildi ekki alveg hvernig málefnum er varða tekjur sveitarfélaga væri fyrir komið. Staðreyndin er sú að fjöldi sveitarfélaga, minni sveitarfélaga, fá allt að því helming tekna sinna gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Hverjir greiða í hann og hvaðan fá sveitarfélögin þær tekjur? Frá útsvarsgreiðendum annarra sveitarfélaga, allra sveitarfélaga. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga og tekjufyrirkomulag sveitarfélaganna er nefnilega eitt besta dæmið um samneysluna sem við höfum. Sveitarfélög greiða í þann sjóð og úr honum er skipt eftir þörf. Samneyslan er í huga flutningsmanna þessa frumvarps skammaryrði, liggur mér við að segja, og gegn henni verður að berjast með hugmyndir frelsisins að vopni, sama hvort einhver vill þiggja það frelsi.

Flutningsmenn virðast gera ráð fyrir því að sveitarfélög fái fyrst og fremst tekjur af eigin íbúðum. Það á við um einhver sveitarfélög. Vissulega. En það á ekki við um öll sveitarfélög. Það er staðreynd að lítil og veikburða sveitarfélög geta ekki staðið undir grunnþjónustu með tekjum af eigin íbúðum eingöngu. Þess vegna höfum við komið á þessu samneyslufyrirkomulagi. Til dæmis er hluti af innheimtu útsvari sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu nýttur til þess að lítil og meðalstór fyrirtæki geti haldið úti grunnþjónustu sinni. Það er því ankannalegt að leggja fram þetta frumvarp trekk í trekk í fullkominni andstöðu við þá sem frumvarpið á að nýtast.

Ég spurði hv. flutningsmann í gær hvort hann hefði kynnt sér umsagnir um frumvarpið á fyrri stigum. Jú, vissulega sagðist hann hafa gert það, en skautaði síðan mjög létt yfir hvað komið hefði fram í þeim umsögnum. Við skulum bara fara aðeins yfir það. Hvað segir í umsögn Reykjavíkurborgar árið 2014, þegar þetta frumvarp kom fram? Það er stórt og fjárhagslega stöndugt sveitarfélag sem ætti samkvæmt hugmyndafræði hv. flutningsmanns ekki að vera sérstaklega hrifið af því að einhver lög væru um lágmarksútsvar og ætti jafnvel að vera mjög ginnkeypt fyrir þessu frumvarpi. Staðreyndin er hins vegar sú að Reykvíkingar greiða sérstakt útsvar, 0,77% af útsvarsstofni eða atvinnutekjum Reykvíkinga, sem rennur í gegnum jöfnunarsjóð til að styðja m.a. við rekstur grunnskóla í öðrum sveitarfélögum, svo dæmi sé tekið. Í umsögn Reykjavíkurborgar segir, með leyfi forseta:

„Það að afnema lágmarksútsvar þýðir að sveitarfélag sem fær jafnvel um helming skatttekna sinna frá íbúum annarra sveitarfélaga getur lagt á lægri skatta en þau sveitarfélög sem standa undir hluta af útgjöldum viðkomandi sveitarsjóðs. Það verður að spyrja hvort eðlilegt er að sveitarfélög sem nýtur framlags frá öðrum sveitarfélögum í gegnum jöfnunarkerfið geti hlíft eigin íbúum við að taka þátt í sameiginlegum útgjöldum með mikilli lækkun útsvars.“

Þarna hefur Reykjavíkurborg kannski einmitt hitt naglann á höfuðið; hvort sveitarfélög eigi að geta hlíft eigin íbúum við að taka þátt í sameiginlegum útgjöldum með mikilli lækkun útsvars. Því að það er náttúrlega það sem liggur hér undir. Það er vilji flutningsmanna að leyfa ákveðnum sveitarfélögum, sem það geta vegna ýmissa aðstæðna, að hlífa íbúum sínum við að taka þátt í þeirri samneyslu sem við höfum komið hér upp þegar kemur að tekjum sveitarfélaga. Það er alveg rétt að það er ýmislegt sem varðar tekjur sveitarfélaga sem mætti skoða. Tíma hv. Alþingis væri vel varið í að setjast almennilega yfir það með sveitarfélögunum og ræða hvernig skipting tekna á milli ríkis og sveitarfélaga ætti að vera, hversu stóran hluta sveitarfélög ættu að fá í tekjum hins opinbera. Það væri hægt að setjast yfir það. Ég er ekki viss um að hv. flutningsmenn myndu taka undir það sem ég hygg að allir sanngjarnir menn sjái þegar þeir setjist yfir þau mál, að það hallar verulega á sveitarfélögin. Það væri gustukaverk að setjast yfir það og kanna hvernig hægt væri að styrkja tekjustofna sveitarfélaganna.

Svo háttar til að sveitarfélögin hafa með sér samband sem heitir því þokkalega gagnsæja nafni Samband íslenskra sveitarfélaga, sem ætti kannski að vera fyrsta viðkomustöð þeirra sem hyggjast gera einhverjar breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga, til þess að kanna málin: Hvernig líst ykkur nú á að við gerum þessar breytingar fyrir ykkar hönd? Svo vill til að umrætt samband hefur einmitt skilað umsögn um frumvarpið þannig að við þurfum ekki einu sinni að leita til þeirra eftir athugasemdum um frumvarpið. Hverjar eru þær? Með leyfi forseta:

„Málið snýst því ekki um að bæta úr stjórnskipunarlegum annmörkum á sjálfsstjómarrétti sveitarfélaga, heldur miklu frekar um það hvort ákveðinn hópur launafólks á Íslandi skuli hafa möguleika á að sleppa að miklu eða öllu leyti við að greiða útsvar af launatekjum sínum þegar það tekur ákvörðun um að velja sér búsetu.“

Þar liggur auðvitað hundurinn grafinn með því frumvarpi sem er lagt hér fram. Ég hætti nú að telja öll númerin í greinargerðinni til að sjá hversu oft frumvarpið hefur verið lagt fram. Með frumvarpinu er auðvitað verið að reyna að koma því á fót að ákveðinn hópur launafólks geti sloppið að miklu eða öllu leyti við greiðslu útsvars.

Hvernig er þetta í nágrannaríkjunum? Við viljum væntanlega stunda góða stjórnsýslu og skoða hvernig málum er fyrir komið í ríkjunum í kringum okkur. Það er skemmst frá því að segja að í öðrum norrænum ríkjum er akkúrat kveðið á um lágmarks- og hámarksútsvar. Í öllum sveitarfélögum Norðurlanda er það fest í lög, svigrúm til hækkunar eða lækkunar um aðeins eitt prósentustig.

Það er kannski þannig að fulltrúar allra sveitarfélaga á Norðurlöndunum hafi ekki heyrt þann mikla frelsisboðskap sem flutningsmenn þessa frumvarps hafa lagt hér fram í gegnum tíðina. Hver eru rökin fyrir þessari samræmdu pólitísku afstöðu okkar og norrænu nágrannaríkjanna? Ég leyfi mér að vitna aftur í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þau eru að allir launþegar skuli greiða ákveðinn hluta af launum sínum til samfélagslegra verkefna eftir gildandi reglum þar um. Skiptir þá skiptir ekki máli hvernig fjárhagsleg staða sveitarfélaganna er að öðru leyti. Það er lykilatriði málsins. Hér er verið að reyna að leggja það til með illa ígrunduðu frumvarpi að opnað verði á það að ákveðin sveitarfélög geti komið málum þannig fyrir að launþegar greiði ekki ákveðinn hluta af launum sínum til samfélagslegra verkefna. Tveir flutningsmannanna eru nýir þingmenn og mikið hefur nú verið talað um endurnýjun á Alþingi okkar Íslendinga og að nýjum þingmönnum ætti að fylgja jafnvel ný og betri vinnubrögð, hafa nýir þingmenn gjarnan sagt. Ég hefði haldið í það minnsta að þessir nýju þingmenn hefðu kannski reynt að gera þetta frumvarp betur úr garði.

Þarna sé ég einn flutningsmann frumvarpsins sem hefur séð sér fært að setjast í það minnsta í hliðarsal, ég þakka fyrir það. En frumvarpið eins og það er lagt fram núna er alveg eins og frumvörpin þegar þau hafa verið lögð fram áður. Hver eru viðbrögðin? Jú, þetta er illa ígrundað frumvarp og flutningsmenn hafa verið hvattir til að vinna það betur. Hefði ekki verið ráð að hlusta á eða jafnvel nenna að lesa yfir þær umsagnir (Forseti hringir.) og þó ekki nema að rökstyðja mál sitt aðeins betur í frumvarpinu, hvað sem líður pólitískri afstöðu til efnis þess?