146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

120. mál
[13:54]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Verði umrætt frumvarp samþykkt mun það hafa í för með sér aukið ójafnræði milli sveitarfélaga og myndi líklega hafa neikvæð áhrif í för með sér hvað varðar t.d. sameiningu sveitarfélaga sem og samvinnu á milli sveitarfélaga, t.d. að ýmsum héraðsbundnum hagsmunamálum.

Síðast þegar þetta frumvarp var lagt fram mætti það mikilli andstöðu í umsögnum og myndi ég vænta þess að það sama yrði uppi á teningnum núna færi það áfram. Því spyr maður sig hvort þetta sé mögulega tímaeyðsla þingsins.

Jafnvel Samband íslenskra sveitarfélaga lagðist hart gegn frumvarpinu á þeim tíma og setti fram þau rök að málið þyrfti mun efnismeiri og víðtækari umræðu en kemur fram í meðfylgjandi greinargerð.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé las upp áðan og þótt hann hafi lesið hana upp áðan ætla ég að lesa hana upp aftur, með leyfi forseta, vegna þess að þar kemur mergurinn málsins fram:

„Málið snýst því ekki um að bæta úr stjórnskipunarlegum annmörkum á sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga, heldur miklu frekar um það hvort ákveðinn hópur launafólks á Íslandi skuli hafa möguleika á að sleppa að miklu eða öllu leyti við að greiða útsvar af launatekjum sínum þegar það tekur ákvörðun um að velja sér búsetu.“

Í ljósi þessa langar mig bara að spyrja hreint út: Er þetta frumvarp einhver fjallabaksleið að því að búa til skattaskjól í hálaunuðum sveitarfélögum?

Eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir benti á í gær er frumvarpið ekki í takt við þróunina út frá auknum kröfum íbúa um hvers kyns þjónustu innan sveitarfélaga.

Hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir spurði hvort íbúar ættu ekki að hafa rétt á því að njóta þess að búa í sveitarfélagi sem hefði rýmri tekjur og slíkt? Jú, auðvitað eiga íbúar að geta notið þess, en það eru aðrar leiðir til að koma því í kring en þetta frumvarp kveður á um.

Það sem ég myndi líka vilja benda á í því samhengi er að íbúar í sveitarfélögum eru hreyfanleg breidd. Fólk flytur í sveitarfélag, svo flytur það kannski burt einhverjum árum síðar. Þess vegna gæti framvinda þessa frumvarps orðið svolítið til þess að menn væru kannski bara svolítið að skjóta sig í fótinn upp á langtímasjónarmið að líta.

Að lokum vil ég taka undir orð og sjónarmið hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppé um samneysluna og gildið í því og segja: Enginn maður er eyja og ekkert sveitarfélag heldur.