146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

120. mál
[14:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég óttast að búin verði til lágskattasveitarfélög, lágskattaparadísir sem veita mjög takmarkaða þjónustu, þjónustu sem samfélagið sem heild þarf að veita, og að þar með sé verið að ýta kostnaðinum yfir á aðra sem veita betri þjónustu, jafnvel meiri þjónustu en það sem skilgreint er sem einhvers konar lágmark, lögbundið hlutverk sveitarfélaganna. Þegar kemur að félagslegri aðstoð sveitarfélaga er hún mjög ólík á milli sveitarfélaga þar sem sum sveitarfélög gera betur við fólk sem er t.d. langtímaatvinnulaust og er búið með rétt sinn til atvinnuleysistrygginga, á meðan önnur sveitarfélög greiða mjög lága upphæð. Þau fylgja samt lögbundinni skyldu sinni. Að sjálfsögðu hlýtur fólk að þurfa að flytjast til þeirra sveitarfélaga eða búa í sveitarfélögum þar sem sú upphæð er hærri, sem leiðir þá aftur til þess að byrðarnar af því að reka samfélagið, byrðarnar af því að reka velferðarsamfélag dreifist á færri hendur og færri sveitarfélög þar sem þá þarf að innheimta hærra útsvar til þess að standa undir þeirri þjónustu. En sveitarfélög (Forseti hringir.) sem myndu nýta sér þessi lög, verði þau að veruleika, eru í rauninni stikkfrí en (Forseti hringir.) setja byrðarnar á aðra. Það finnst mér ósanngjarnt. Þess vegna er ég á móti þessu frumvarpi.