146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

120. mál
[14:34]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Mig minnir að það hafi verið Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, sem lýsti samskiptum sveitarfélaga hér á höfuðborgarsvæðinu þannig að sum þeirra væru eins og gaurinn sem mætti í partí eftir ball og færi beint í ísskápinn og byrjaði að éta úr matarkistu gestgjafans. Það sagði hann auðvitað í hálfkæringi, en í því er alvarlegur undirtónn.

Hér hefur verið mikið rætt um hvernig sveitarfélög myndu skera við nögl og komast upp með eins lítið og þau gætu af lögbundinni þjónustu. En þetta snýst ekki bara um hina lögbundnu þjónustu. Þetta snýst ekki bara um lögbundin verkefni sveitarfélaga, heldur líka þau ólögbundnu. Það er auðvitað sérstaklega alvarlegt þegar sveitarfélög liggja algjörlega saman í einum hnapp og í rauninni er verið að mismuna fólki gríðarlega mikið eftir því hvorum megin götu eða lækjar það býr. Það skapar freistnivanda, herra forseti. Það mun leiða til þess að sum sveitarfélög munu freistast til þess að skera niður þjónustu. Við sjáum það vel sem unnið höfum á vettvangi sveitarstjórna að það er ótrúlega misjafnt hvað sveitarfélög leggja í íþróttir, menningu, listir, svo ég tali nú ekki um þau verkefni sem eru okkur svo brýn, sem eru auðvitað málefni fatlaðra, skóli og annað slíkt sem okkur ber að sinna, en hægt er að inna af hendi með mjög misjöfnum hætti eins og dæmin sanna.

Íbúar eru farnir að gera meiri kröfur um þjónustu. Það er skrýtið að freista sveitarfélaga til að fara í undirboð og samkeppni þegar við vitum að íslensk bæjarfélög eru ekki í samkeppni hvert við annað um ungt og kraftmikið fólk, heldur við öll nágrannalöndin. Ef þau ætla að lifa þá samkeppni af ættu þau auðvitað að bjóða upp á sem víðtækasta og besta þjónustu, lögbundna en líka ólögbundna. Það er sem betur fer liðin tíð að fjölskyldur velji sér bara búsetu þar sem er tryggur matur og húsaskjól. Við gerum sem betur fer í dag meiri kröfur af lífinu en það.

Ég veit ekki, herra forseti, hvað maður á að segja þegar þingmenn ríkisstjórnar leggja fram svona frumvarp þar sem verið er að leggja grunn að stofnun íslenskrar skattaparadísar, eins og hér hefur margoft komið fram. Þetta gera þeir í kjölfar þingkosninga sem voru einmitt um Panama-skjölin og umræður um skýrslu sem fjallaði um erlendar skattaparadísir og skaðsemi þeirra. Ég held að mönnum ætti að vera ljóst hvaða skoðun almenningur hefur á slíkum fyrirbærum.

Þetta gera þeir líka á sama tíma og staðan á vinnumarkaði er afar viðkvæm. Stéttarfélög kalla eftir félagslegum stöðugleika ekki síður en efnahagslegum, aðgerðum í húsnæðismálum, að betur verði hlúð að velferðarkerfinu. Þetta frumvarp er í rauninni atlaga að því. Það gefur sveitarstjórnarfólki möguleika á að rústa undirstöðum sem samfélagið okkar byggir á. Að mælt skuli fyrir þessu frumvarpi núna minnir mig reyndar á þegar áfengisfrumvarpið var fyrst á dagskrá Alþingis eftir jólafrí 2009, þegar glíman við hrunið stóð sem hæst. Mér finnst þetta sýna að þeir Sjálfstæðismenn sem leggja fram frumvarpið eru í engum takti við þjóðina þegar kemur að þeim málum sem menn vilja leggja áherslu á. Það er í rauninni bara brandari, en í þessu tilfelli svartur húmor, eins og ég sagði áðan og margir hv. þingmenn hafa nefnt hér, að við séum að ræða frumvarp um íslenskar skattaparadísir núna.

Herra forseti. Með leyfi þínu langar mig að lesa upp úr umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga við sambærilegt frumvarp sem lagt var fram á síðasta þingi:

„Þar sem fámenn sveitarfélög hafa miklar tekjur af álagningu fasteignaskatts gætu þær aðstæður skapast að þau gætu lækkað álagningarhlutfall útsvars verulega eða jafnvel niður í 0% ef lágmarksútsvar yrði afnumið með öllu. Það myndi skapa möguleika á innlendum skattaparadísum og tilheyrandi „gervibúsetu“ með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Íbúar þessara sveitarfélaga myndu því sleppa að miklu eða öllu leyti við að greiða útsvar af launatekjum sínum óháð upphæð launa.“

Þetta er umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Sú myndlíking sem flestir þingmenn hér hafa notað um skattaparadísir eru því ekki einhver pólitísk leikfimi heldur beinlínis kalt mat þessara heildarsamtaka sveitarfélaga á frumvarpinu. Ég held að það yrði mikið óheillaspor ef þetta frumvarp yrði samþykkt. Það væri aðför að félagslegum stöðugleika og samfélagslegri sátt um að borga skatt af launatekjum. Aðför að því að við vinnum saman og byggjum saman samfélag og hlúum hvert að öðru.

Stærsti útgjaldaliður sveitarfélaga er rekstur grunn- og leikskóla ásamt félagsþjónustunni. Samþykkt frumvarpsins myndi einfaldlega skapa óvissu um það hvernig fjármagna eigi þessa þjónustu og skapa hvata til að skera fjárframlögin eins mikið niður og menn komast upp með. Kannski er það markmið hv. þingmanna að fjársvelta starfsemina svo auðveldara verði að taka upp skólagjöld í grunnskólum og ýta undir einkavæðingu.

Eru ekki betri leiðir til að tala fyrir aukinni einkavæðingu? Af hverju kemur Sjálfstæðisflokkurinn ekki út úr skápnum og talar bara hreint út um það, þá getum við tekist á um kosti og galla þess í staðinn fyrir að hér sé sýknt og heilagt verið að lauma hlutunum bakdyramegin inn, skapa þær aðstæður að við sitjum uppi — og einhvern veginn finnst öllum að þetta sé eina leiðin.

Herra forseti. Við búum líka í dag við millifærslukerfi þar sem stóru sveitarfélögin greiða meira í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og þau minni njóta þess. Íbúar Reykjavíkurborgar borga t.d. 1% af launum sínum til að standa undir grunnþjónustu annarra sveitarfélaga. Ætlum við að setja það í uppnám? Um það er nefnilega samstaða hjá þessum stærri sveitarfélögum sem greiða hlutfallslega meira inn í kerfið. Ætlum við að leggja starfsemi jöfnunarsjóðs niður sem mörg sveitarfélög landsbyggðanna reiða sig á? Ég er ekki viss um að það yrði skref sem menn yrðu sáttir við að sjá stigið að nokkrum árum liðnum. Gallinn við þetta er að það yrði erfitt að snúa til baka. Margar dreifðar litlar byggðir eru í nógu miklu basli í núna við að tryggja sínum íbúum góð skilyrði og auðvelda búsetu alls staðar í landinu svo þetta bætist nú ekki ofan á.

Við erum að ræða þetta mál núna, herra forseti. Ég er reyndar sannfærður um að frumvarpið verður ekki að lögum. Mín lokaorð í þessari umræðu eru þau að ég vona að það komi aldrei hingað aftur inn.