146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

fríverslunarsamningar.

[15:01]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Virðulegi forseti. Efnahagur og lífskjör okkar Íslendinga byggja á opnu aðgengi að erlendum mörkuðum og um leið eðlilegum og sanngjörnum aðgangi erlendra aðila að íslenskum markaði. Stjórnvöld verða að vera opin fyrir nýjum tækifærum, átta sig á þeim hættum sem hugsanlega kunna að vera fyrir hendi og hafa þekkingu til að greina strauma og stefnur í alþjóðlegum stjórnmálum og viðskiptum. Opin og gagnkvæm samskipti og samvinna við aðrar þjóðir á sviði lista og menningar hafa auðgað íslenskt mannlíf, skotið stoðum undir skapandi greinar og gefið íslenskum listamönnum tækifæri í öðrum löndum sem þeir hafa nýtt með glæsilegum árangri. Íslenskir háskólar og vísindastofnanir hafa tekið þátt í alþjóðlegu starfi, miðlað af þekkingu sinni og njóta þekkingar annarra. Á hverju ári sækja þúsundir íslenskra námsmanna sér menntun til annarra landa og flestir snúa aftur heim, sem betur fer, með nýja þekkingu og nýjar aðferðir. Óhætt er að fullyrða að íslenskt samfélag sé litríkara og fjölbreyttara vegna opinna samskipta við aðrar þjóðir.

Virðulegi forseti. Það er óhætt að fullyrða að fáar þjóðir eigi meira undir frjálsum, alþjóðlegum viðskiptum en við Íslendingar. Við höfum góða reynslu af gerð fríverslunarsamninga með þátttöku okkar í EFTA þar sem EES-samningurinn er sá mikilvægasti. Fríverslunarsamningur er við Færeyjar, Hoyvíkursamningurinn og árið 2014 tók gildi fríverslunarsamningur við Kína. Þá er samningur um viðskipti milli Íslands og Grænlands þar sem kveðið er á um tiltekin tollfríðindi í viðskiptum milli landanna. Við eigum að auka þau samskipti verulega á öllum sviðum við vini okkar og nágranna á Grænlandi, ekki aðeins í viðskiptum heldur líka þegar kemur að menningu, heilbrigðisþjónustu, náttúruvernd og nýtingu auðlinda, menntun o.s.frv. EFTA-ríkin hafa gert 25 fríverslunarsamninga sem ná til alls 36 landa. Við Íslendingar njótum góðs af.

Væntanlegt brotthvarf Bretlands úr Evrópusambandinu getur hins vegar haft veruleg efnahagsleg áhrif á Ísland enda er Bretland eitt okkar mikilvægasta viðskiptaland. Vöruútflutningur til Bretlands hefur vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum og aðgengi að breskum markaði er okkur lífsnauðsynlegt, ekki síst vegna sjávarafurða. Þjónustuviðskipti eru einnig mikilvæg, en útflutningur þjónustu til Bretlands nemur um 61 milljarði kr. á ári, eða um 10% af heildarþjónustuviðskiptum. Breskir ferðamenn eru gríðarlega mikilvægir fyrir ferðaþjónustuna og eru næstfjölmennasti hópurinn sem hingað kemur á eftir Bandaríkjamönnum. Það má því öllum vera ljóst hve mikilvægt það er að við tryggjum viðskiptahagsmuni okkar við Bretland. Það verður best gert með víðtækum fríverslunarsamningi.

Ég tel raunar rétt að við horfum til fleiri þátta í þeim samskiptum, þá ekki síst á sviði vísinda, menntunar, lista og menningar. Ég held að það sé nauðsynlegt að við mörkum okkur skýra stefnu í fríverslun við aðrar þjóðir en virðum um leið fullveldi og sjálfsákvörðunarrétt allra þjóða. Með opnum viðskiptum styrkist hagur okkar sem og annarra þjóða sem stunda frjáls viðskipti. Það er einnig mikilvægt viðfangsefni fyrir íslenska utanríkisþjónustu og stjórnvöld að marka sérstaka stefnu í fríverslun við þróunarríkin. Fríverslun er miklu skilvirkari aðferð en ómarkviss þróunaraðstoð við að aðstoða fátækari lönd að brjótast úr fátækt til bjargálna. Ég hygg að við eigum að taka sérstaka umræðu um þátt fríverslunar þegar kemur að fátækari löndum.

Að þessu sögðu vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. utanríkisráðherra:

Hefur utanríkisráðuneytið látið meta efnahagsleg áhrif fríverslunarsamninga sem Ísland er aðili að?

Hverju hafa fríverslunarsamningar skilað íslenskum neytendum, svo sem fríverslunarsamningurinn við Kína?

Hver er stefna íslenskra stjórnvalda við gerð fríverslunarsamninga?

Mun hæstv. utanríkisráðherra beita sér fyrir því að gerður verði fríverslunarsamningur milli Íslands og Bretlands?

Hvaða fríverslunarsamninga telur ráðherra eftirsóknarvert fyrir okkur Íslendinga að gerðir verði á komandi árum?