146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

fríverslunarsamningar.

[15:12]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka frummælanda fyrir að hefja umræðuna.

Fríverslunarsamningar eru afar mikilvægur þáttur í utanríkisviðskiptum Íslands og þar með utanríkisstefnu okkar. Þar er fyrirferðarmestur og mikilvægastur EES-samningurinn. Fríverslunarsamningar eru gerðir af íslenskum stjórnvöldum í viðskiptalegum og efnahagslegum tilgangi við ríki eða hóp ríkja til að bæta aðgang íslenskra fyrirtækja að viðkomandi mörkuðum til að draga úr eða afnema viðskiptahindranir og tryggja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs til lengri tíma enda fela þeir í sér verulegar tollalækkanir og búa til samráðsvettvang milli fyrirtækja í millilandaviðskiptum.

Annarrar kynslóðar fríverslunarsamningar fela einnig í sér ákvæði um frelsi í þjónustuviðskiptum, vernd fjárfestinga, hugverkaréttindi, samkeppnismál og rýmri reglur um dvalar- og atvinnuleyfi fyrir lykilstarfsfólk.

Ákafir fylgjendur fríverslunarsamninga benda á þjóðhagslegan ávinning af frjálsri verslun og millilandaviðskiptum sem drifkraftinn á bak við gerð þeirra. Rök þeirra sem vilja framgang óheftrar fríverslunar sem mestan snúast líka að því að um mannúðarverk sé að ræða, sér í lagi gagnvart fátækum þjóðum. Ríku, vestrænu þjóðirnar séu með þessum samningum að hjálpa fátæku þriðja heims þjóðunum

Í þennan streng tók hæstv. utanríkisráðherra í umræðum í þinginu nýverið þegar ræddur var fríverslunarsamningur Íslands og Georgíu og þar rætt hvernig mannréttindabrot sem eiga sér stað þar rími við þau ákvæði fríverslunarsamninga EFTA um að aðildarlöndin staðfesti skuldbindingu sína um að styðja við lýðræði, réttarreglur og mannfrelsi í samræmi við skyldur sínar. Og þetta á við um aðra fríverslunarsamninga sem Ísland á aðild að.

Viðskiptahagsmunir eru því miður ríkari hagsmunir en mannréttindi. Mig fýsir að vita hjá hæstv. utanríkisráðherra hvort hann hafi í hyggju að beita sér fyrir því að fríverslunarsamningur á milli EFTA-ríkjanna og Frelsissamtaka Palestínumanna sem tók gildi árið 1999 gæti virkað betur en hann hefur gert og hvort hann hafi tekið þetta mál upp á fundi sínum með Riyad al-Maliki, utanríkisráðherra Palestínu, á fundi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf fyrir skemmstu.

Hæstv. utanríkisráðherra fór aðeins yfir Kínasamninginn en varðandi spurningu málshefjanda um fríverslunarsamninginn við Bretland: Þýðir það að við ætlum eingöngu að gera það með marghliða samningum í tengslum við EFTA eða ætlum við að einblína á gerð tvíhliða samnings (Forseti hringir.) á milli Íslands og Bretlands? Þetta er mikilvægt og ég vona að hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) geti svarað okkur því.