146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

fríverslunarsamningar.

[15:15]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Fríverslunarsamningar snerust eitt sinn um frjálsa verslun og var það vel. Frjáls verslun milli ríkja er ein undirstaða þeirra lífsgæða sem nútíminn ber með sér. Það er rétt að við ættum að leita fleiri fríverslunarsamninga, sérstaklega í tengslum við þróunarlönd, og ekki úr vegi að setja forgang á fríverslunarsamning við Bretland sem að vísu virðist þó ætla að beita sjálft sig sambærilegum viðskiptaþvingunum og lönd beita almennt lönd sem þau eru í stríði við.

Almennt er ég mjög hlynntur því að við reynum að stækka innan EFTA og jafnvel að stækka EFTA sjálft til Austur-Evrópu. Undanfarin ár, kannski fyrst og fremst frá því að GATT-samningurinn var tekinn upp, hafa fríverslunarsamningar farið að snúast um allt aðra hluti, þeir eru önnur kynslóð slíkra samninga. Þar er m.a. oft kveðið á um svokölluð ISDS-ákvæði sem eru sérstakir gerðardómar sem greiða úr deilum milli ríkja og fjárfesta. Það er eðlilegt að hafa gerðardóma sem greiða úr deilum milli ríkja um efnisatriði samninga, en það hefur reynst mjög illa að leyfa fjárfestum að draga ríki gegnum rándýr lagaleg ferli. Það þyrfti ekki nema eitt svona mál til þess að knésetja ríkissjóð ef svona væri tekið upp hér og almennt farið að beita þeim, enda er Kanada orðið eitt mest lögsótta ríki heims vegna ISDS-ákvæða í NAFTA-samningnum og samspils þess við gífurlegar náttúruauðlindir landsins.

En viti menn, í fríverslunarsamningi Íslands og Kína er einmitt svona ákvæði. Af þeim sökum einum, óháð öðrum jákvæðum þáttum þess samnings, væri það í rauninni tilefni til þess að slíta samningnum og passa sig á því að setja ekki slík ákvæði í svona samninga til framtíðar. Við verðum að auka fríverslun og styrkja þannig hag okkar og annarra, en við verðum að gæta okkar á því að fríverslun verði ekki einhvers konar stikkorð eða hjáheiti fyrir trójuhesta sem koma og styðja (Forseti hringir.) stórfyrirtæki á skaðlegan hátt á kostnað samfélagsins.