146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

fríverslunarsamningar.

[15:26]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Fríverslunarsamningar eru að mestu leyti byggðir á göfugum markmiðum. Góðir fríverslunarsamningar eru byggðir á gagnkvæmni, hvort sem um er að ræða marghliða eða tvíhliða samninga. Farsælir fríverslunarsamningar bæta líf íslenskra fyrirtækja með því að draga úr og afnema hvers kyns viðskiptahindranir og eru þáttur í að tryggja alþjóðlega samkeppnisstöðu Íslands til lengri tíma. Þetta á allt við um farsæla fríverslunarsamninga, eins og áður segir, en það eru til dæmi um fríverslunarsamninga sem eru ekki hliðhollir því lýðræðisfyrirkomulagi sem við búum við á Íslandi.

Á síðasta kjörtímabili var TiSA-samningurinn þó nokkuð í umræðunni. TiSA-samningurinn snýst fyrst og fremst um þjónustuviðskipti sem eru þær tegundir fríverslunarsamninga sem munu sennilega aukast í framtíðinni. TiSA-samningurinn bar með sér fjölmarga þætti sem geta hins vegar verið mikið áhyggjuefni í samhengi fríverslunarsamninga fyrir þjóð okkar. Þar ber að nefna að í samningsgerðinni sjálfri réð leyndarhyggjan ríkjum. Almenningur og jafnvel þingmenn þurftu að hafa mikið fyrir því að nálgast upplýsingar og gögn um samningavinnuna á meðan alþjóðleg fyrirtæki höfðu greiðan aðgang að samningaborðinu alveg frá upphafi og á meðan ferlinu stóð. Þau höfðu líka hæg heimatök við að hafa áhrif á samningsgerðina sjálfa.

Annað áhyggjuefni í sambandi við fríverslunarsamninga eru gerðardómarnir. Gerðardómarnir samanstanda oft af fólki sem er í raun óhæft til að skera úr um málin vegna þess að það er of tengt fyrirtækjunum sem um ræðir. Meginreglan er sú að fyrirtækin fara með sigur af hólmi.

Í þessu samhengi öllu er spurningin sem við þurfum að geta svarað, ekki bara í orði heldur líka á borði: Hvort finnst okkur mikilvægara að hafa í hávegum lagasetningu sem miðar að bættum hag íbúa, náttúrunnar og nærumhverfis okkar og lýðræðisgangverksins (Forseti hringir.) eða teljum við mikilvægara að tryggja gróða stórra fjölþjóðafyrirtækja? (Forseti hringir.)

Svo langar mig að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvað sé að frétta af TiSA-samningsmálinu öllu.