146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

fríverslunarsamningar.

[15:36]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er að það kemur mér þægilega á óvart hversu góður samhljómur virðist vera hér í þingsal þegar kemur að fríverslun og fríverslunarsamningum, þó að auðvitað sé einhver meiningarmunur. Ég ætla ekkert að fara að rífast við menn um söguna og hverjum er að þakka hvað og hverjir eru landflótta o.s.frv. En ég held að hæstv. utanríkisráðherra sé nokkur vorkunn hér á eftir þegar hann þarf að svara u.þ.b. 15–20 spurningum sem að honum hefur verið beint.

Ég hygg að þetta sýni okkur nauðsyn þess að við ræðum stefnuna í utanríkisviðskiptum okkar frekar og kannski eigum við að taka afmarkaðri mál. Ég hef sérstakan áhuga á því að við fjöllum sérstaklega um samskipti okkar við Grænland og hvernig við getum aukið samskiptin, bæði í viðskiptum, vísindum, umhverfismálum og umhverfisvernd, í heilbrigðisþjónustu o.s.frv. Ég hef líka mikinn áhuga á því að við ræðum sérstaklega hvort það geti verið skynsamlegt að hafa forystu um það að við myndum sérstakt fríverslunarsvæði í Norðurhöfum með vinum okkar á Grænlandi, í Noregi, Færeyjum, Bandaríkjunum, Kanada og Bretlandi — kannski er það einhvern útópísk hugmynd, ég hygg ekki — þar sem við tækjum upp samstarf á sviði vísinda, lista, menningar, mennta, heilbrigðismála, umhverfismála og öryggismála, fyrir utan viðskipti. Þetta er svona framtíðarmúsík sem væri gaman að fá að fjalla hér um en enginn tími til að þessu sinni. Kannski er hér komið efni í nokkrar sérstakar umræður við hæstv. utanríkisráðherra á næstu vikum um einstök afmörkuð mál. (Forseti hringir.)

Að lokum óska ég honum velfarnaðar við að svara þessum 15–20 spurningum á tveimur mínútum.