146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

breyting á ýmsum lögum á sviði samgangna.

234. mál
[15:51]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mat okkar að ekki sé um að ræða neinar umtalsverðar breytingar í rekstrarumhverfi íslenskra skipafélaga. Það er miklu frekar verið að innleiða hér reglur sem eru getum við sagt viðurkenndar á alþjóðavettvangi, alþjóðamarkaði, og almenn samstaða er um að starfa skuli eftir. Við erum fyrst og fremst að innleiða í lög reglugerðir sem þegar er farið að vinna eftir hér og í öðru tilfelli einhver ný atriði. Þannig að okkar mat er það að á rekstrarumhverfi skipafélaga muni þetta ekki hafa nein umtalsverð áhrif.

Hér er um að ræða fyrst og fremst beinar innleiðingar á málum sem er að finna í frumvarpinu. Eins og sagði í textanum hér áðan og ég kom inn á í ræðu minni höfum við í raun reynt að fara þá leið að vera ekkert að ítreka, vera ekki að innleiða eitthvað sem er umfram þær samþykktir sem við höfum undirgengist að starfa eftir, en það verður síðan í meðförum nefndarinnar að koma í ljós eftir að málið hefur verið sent til umsagnar hvort einhverjar athugasemdir koma sem nefndin telur ástæðu til að taka tillit til.