146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

135. mál
[15:56]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu sem felur í sér að Alþingi álykti að fela innanríkisráðherra að hefja undirbúning að flutningi Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þingmenn Sigurður Ingi Jóhannsson, Oddný G. Harðardóttir og Ásmundur Friðriksson.

Umræðan um flutning stofnunarinnar í hentugt og rúmgott húsnæði á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli hefur staðið um nokkurra missera skeið. Að mati flutningsmanna fylgja fjölmargir kostir því að flytja alla starfsemi Landhelgisgæslunnar á Suðurnesin, nánar tiltekið á öryggissvæðið á Ásbrú, en nú þegar er Landhelgisgæslan með umfangsmikla starfsemi á svæðinu og þúsundir fermetra af vannýttu húsnæði. Því fylgir mikil hagræðing að hafa alla starfsemina á einum stað og þjónusta og öryggi mun einnig aukast þar sem viðbragðstími Landhelgisgæslunnar styttist með því að færa alla starfsemi hennar. Einnig mun flugfloti Gæslunnar komast í gott framtíðarhúsnæði sem uppfyllir öryggisstaðla.

Fyrrverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, fékk Deloitte til að gera hagkvæmnisathugun á því að flytja Landhelgisgæslu Íslands til Suðurnesja. Það var gert 2011. Úttektin er dagsett 14. apríl 2011 og niðurstaða hennar er að kostnaðarsamt sé að flytja starfsemi Landhelgisgæslunnar, m.a. vegna aukins ferðakostnaðar. Árleg aukning rekstrarkostnaðar vegna aksturs, þ.e. kílómetragjald og rútuferðir, er í skýrslunni sögð vera 185,7 millj. kr. Ég dreg þessa tölu í efa. Skýrsluhöfundar halda fram að greiða þurfi aksturskostnað og kílómetragjald samkvæmt kjarasamningum og í kjarasamningi SFR, stéttarfélags í almannaþjónustu, komi fram að vegna aksturs til og frá Keflavíkurflugvelli reiknist 30 mínútna ferðatími fyrir hvern vinnudag. Hið rétta er að starfsmenn Gæslunnar sem starfa á Keflavíkurflugvelli fá 30 mínútna yfirvinnu vegna aksturs en ekki greitt sérstaklega fyrir aksturskostnað. Þeir koma sér sjálfir í og úr vinnu. Þessar 30 mínútur eru því í raun hluti af föstum launakjörum.

Einnig kemur fram í kjarasamningum, samkvæmt skýrslunni, að stofnanir sem eru utan ystu marka þéttbýlis skuli semja um greiðslur ferðakostnaðar fyrir starfsmenn almennt og þá er gert ráð fyrir kílómetragjaldi. Sannleikurinn er sá að þetta atriði á ekki við enda er svæðið, Suðurnesin, ekki skilgreint samkvæmt framangreindu. Starfsmenn Gæslunnar á Keflavíkurflugvelli fá því ekki þessar greiðslur.

Í skýrslunni er talað um að koma þurfi upp reglulegum rútuferðum fyrir alla starfsmenn í stað þess að starfsmenn myndu keyra sjálfir. Ég átta mig ekki alveg á þessari ályktun því að eins og fyrr segir fá starfsmenn Gæslunnar sem starfa á Keflavíkurflugvelli og búa í Reykjavík ekki greiðslur fyrir akstur í dag. Því ætti að leggja í kostnað vegna rútuferða upp á 21,7 millj. kr. ef það er ekki nauðsynlegt?

Áætlað er að árlegur kostnaður vegna aksturs og kílómetragjalds yrði 124,9 millj. kr., sem er væntanlega 1–2 millj. kr. á mann. Þær heimildir sem ég hef telja þessa áætlun algerlega óraunhæfa. Engar kvaðir í kjarasamningum eru um greiðslur fyrir akstur til og frá vinnu þegar um nýráðningar er að ræða. Annað sem vekur athygli við rýni úttektar er að skýrsluhöfundar virðast gefa sér að Suðurnesjamenn muni ekki vinna hjá Gæslunni í framtíðinni og að núverandi starfsmenn muni ekki flytja á svæðið þegar á líður. Mér þykir þetta helst til neikvæð nálgun. Samfélagið á Suðurnesjum er mjög gott og ég er sannfærð um að þegar menn fara að starfa þar muni a.m.k. hluti starfsmanna telja heppilegra að búa nærri starfsstöðinni. Starfsmannavelta er einnig alltaf einhver þannig að ég tel raunhæft að það megi álykta sem svo að ef starfsemi Gæslunnar flyst til Reykjanesbæjar muni fleiri Suðurnesjamenn sækja um störf þar.

Niðurstaða mín er því sú að aksturskostnaður yrði mun minni en gert er ráð fyrir í þessari skýrslu frá árinu 2011.

Annar liður í skýrslunni sem hefur veruleg áhrif á aukinn rekstrarkostnað er flutningur flugdeildar Landhelgisgæslunnar og breytingar á rekstri hennar. Ef af flutningi verður þyrfti að breyta núverandi bakvaktafyrirkomulagi deildarinnar í viðverufyrirkomulag. Þá þyrfti að fjölga flugmönnum um 50%. Þess ber þó að geta að með breyttu vaktafyrirkomulagi styttist viðbragðstími flugmanna mikið. Nú eru menn á bakvöktum og viðbragðstími er 30 mínútur en hann styttist í örfáar mínútur ef menn væru á staðnum. Þarna erum við því að tala um aukið öryggi.

Viðverufyrirkomulaginu fylgir aukinn kostnaður, ekki bara vegna fjölgunar starfsmanna heldur einnig vegna aukinnar notkunar á tækjum og auknu viðhaldi á þeim.

Skýrsluhöfundar benda hins vegar á eftirfarandi, sem ég tel vera mjög mikilvægt atriði þegar við mörkum stefnu til framtíðar, með leyfi forseta:

„Til lengri tíma er skynsamlegt að áhafnir séu með viðveruvakt og það tíðkast almennt hjá öðrum þjóðum en vegna kostnaðar og vöntunar á sérhæfðu starfsfólki þá hefur það ekki reynst mögulegt hjá Landhelgisgæslunni.“

Þessu þurfum við að breyta og þessu getum við breytt, ekki kannski í dag eða á morgun en við getum svo sannarlega stefnt í þessa átt í okkar langtímaáætlunum.

Ég vil benda á varðandi útkallstímann að það er mjög vel mögulegt þar sem þyrlurnar eru nú þrjár að vera með eina þyrlu staðsetta á Norðurlandi þar sem mjög mörg útköll eru fyrir austan og það myndi einnig auka öryggi og styrkja Gæsluna.

Forsendur skýrslunnar eru að flugskýlið á Reykjavíkurflugvelli sé mátulega stórt miðað við núverandi flugflota en þær forsendur eru löngu brostnar. Flugskýlið sem Gæslan hefur á Reykjavíkurflugvelli er orðið allt of lítið og menn þurfa ekki að deila um það. Höfundar segja, með leyfi forseta:

„Aðstaðan í heild er því nógu góð til skemmri tíma en það þyrfti að bæta aðstöðuna til lengri tíma litið, sérstaklega ef áætlanir eru um eflingu starfseminnar.“

Að auki, eins og við öll vitum, ríkir mikil óvissa um framtíð Reykjavíkurflugvallar og við hljótum að þurfa að taka það líka með í reikninginn þegar við mörkum okkur stefnu til framtíðar varðandi Landhelgisgæsluna.

Innanríkisráðuneytið hefur látið vinna langtímaáætlun um starfsemi Landhelgisgæslu Íslands. Ef við ætlum að stefna að því að hafa staðbundið útkallslið hjá Gæslunni, sem væri liður í eðlilegri þróun á starfsemi Gæslunnar, vil ég segja að aukinn rekstrarkostnaður þess vegna þyrfti ekki að koma fram allur í einu. Það mætti t.d. skoða hvort mögulegt væri að leggja fram fimm eða tíu ára áætlun varðandi flutning Gæslunnar. Það sem ég er að benda á er að mér finnst að þetta þingmál eigi að vera upptaktur að því að fleiri þættir en nú er séu teknir inn í langtímaáætlun Landhelgisgæslunnar.

Ég vil mótmæla ákveðnu atriði í úttektinni sem er beinlínis rangt en þar kemur m.a. fram að sækja þyrfti aðra björgunaraðila til Reykjavíkur í ákveðnum tilfellum, svo sem björgunarsveitir, lögreglu, sérsveit og leitarhunda. Nú spyr ég: Hafa skýrsluhöfundar ekki hugmynd um að á Suðurnesjum er blómlegt samfélag með ríflega 20.000 íbúum? Þar eru afbragðsslökkviliðs- og sjúkraflutningsmenn, læknar, öflugt björgunarsveitarfólk, lögregla og menn úr sérsveitinni. Slíkar fullyrðingar lýsa ekki bara fávisku heldur einnig fordómum og það er mjög slæmt.

Samkvæmt mínum upplýsingum eru forsendur fyrir niðurstöðum útreikninga skýrslunnar að mestu fengnar frá Landhelgisgæslunni og Siglingamálastofnun, nú Samgöngustofu. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar unnu greinargerð árið 2007 sem bar heitið „Greinargerð um kostnað og áhrif í tengslum við skoðun á flutningi Landhelgisgæslu Íslands til Keflavíkur“. Mjög langt heiti. Þessi greinargerð var á sínum tíma unnin fyrir samgönguráðuneytið og nefnd vegna flutnings Reykjavíkurflugvallar. Nú spyr ég: Eiga þessar forsendur enn við? Þær eru frá 2007. Ég held ekki.

Í umræddri athugun kom fram að um 40 manns starfi nú við loftvarnaeftirlit en það er tengt öllum loftvarnaupplýsingakerfum NATO. Hins vegar er ekki nefnt í úttektinni að Landhelgisgæslan rekur nú þegar mörg mannvirki á öryggissvæðinu sem eru ekkert eða lítið nýtt. Í úttektinni kemur fram að kostnaður vegna breytinga á húsnæði geti orðið verulegur. Sú fullyrðing er röng. Húsnæðið er til staðar og tilbúið til notkunar. Aðeins þarf að greiða viðhald, rafmagn og hita en þann kostnað greiðir íslenska ríkið nú þegar. Ekki er um að ræða leigugreiðslur enda er húsnæðið nú í umsjá Landhelgisgæslunnar. Í skýrslunni segir hins vegar, með leyfi forseta:

„Mögulega gæti leigukostnaður lækkað þar sem leiguverð er lægra á Suðurnesjum en í Reykjavík en aftur á móti er líklegt að aðstaðan myndi stækka verulega.“

Þessi fullyrðing röng og byggist á vanþekkingu. Enn og aftur, Landhelgisgæslan er nú þegar með húsnæði í rekstri. Það er ekki um leigukostnað að ræða.

Með því að nýta húsnæði betur undir starfsemi Gæslunnar næðist mikil fjárhagsleg hagræðing fyrir ríkið til lengri tíma. Hér má nefna stóra flugskýlið, 12.200 fermetra, sem endurnýjað var árið 2000 og þjónustubyggingar sem má nýta fyrir flugvélar, þyrlur og viðhald. Óverulegar breytingar þarf að gera á þessum byggingum svo þær henti starfsemi Gæslunnar. Í þessu samhengi er rétt að benda á ábyrgð ríkisins gagnvart Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins varðandi viðhald og rekstur mannvirkja.

Með flutningi til Suðurnesja fengi Landhelgisgæslan gott framtíðarhúsnæði og stórbætta aðstöðu. Nú er Landhelgisgæslan með starfsemina dreifða í leiguhúsnæði á mörgum stöðum, þar með talið á öryggissvæðinu á Ásbrú eins og það nefnist. Stækkunarmöguleikar eru t.d. ekki á Reykjavíkurflugvelli þar sem flugsveitin er nú til húsa og húsnæðið mjög óhentugt í alla staði. Í byggingum á öryggissvæðinu er hins vegar aðstaða fyrir alla starfsemi Gæslunnar. Þar er landsvæði sem hægt er að laga að þörfum stofnunarinnar og velvilji er hjá öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum.

Á svæðinu er einkar góð hafnaraðstaða, Njarðvíkurhöfn, Keflavíkurhöfn og Helguvíkurhöfn. Nú þegar ber Landhelgisgæslan ábyrgð á rekstri hluta Helguvíkurhafnar, þ.e. þess hluta sem er á eignaskrá Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins. Úttekt á nauðsynlegum breytingum á hafnaraðstöðu liggur fyrir. Hún er reyndar frá 2009, þyrfti kannski að skoða hana eitthvað aftur. Staðsetning hafna út frá öryggissjónarmiðum myndi batna frá því sem nú er þar sem styttra yrði fyrir varðskipin að komast út á aðalstarfssvæði Landhelgisgæslunnar, þ.e. hafsvæðið í kringum Ísland. Eins og staðan er núna hef ég það frá Gæslumönnum að það er oft erfiðleikum háð að koma skipunum frá höfninni í Reykjavík. Það eru svo mörg skip og þröngt um þá að þeir yrðu miklu fljótari að fara beint út annaðhvort frá Njarðvík eða Keflavík.

Með samþættingu verkefna munu möguleikar Landhelgisgæslunnar til að sinna leit og björgun í samstarfi við nágrannaþjóðir margfaldast en Landhelgisgæslan nýtir nú þegar öryggissvæðið í þeim tilgangi. Það hefur háð Landhelgisgæslunni að hafa ekki verið með viðeigandi tengimöguleika sem eru til staðar á Suðurnesjum á sviði leitar og björgunar, öryggis- og varnarmála og löggæslu og umhverfisverndar og auðlindagæslu við stofnanir nágrannaríkja sem flestar eru herir eða stofnanir á vegum varnarmálaráðuneyta samstarfsþjóðanna.

Niðurstaða úttektarinnar frá 2011 er umdeild, m.a. hefur verið bent á að forsendur hennar fyrir auknum kostnaði séu ekki réttar enda segja skýrsluhöfundar að við útreikninga séu forsendur ýmissa þátta háðar óvissu. Þeir benda einnig á að úttektin horfi eingöngu til fjárhagslegra áhrifa en einnig þurfi að meta þætti er varða öryggismál þegar ákvörðun um mögulegan flutning verður tekin. Ég vil ítreka þetta, þetta skiptir nefnilega mjög miklu máli. Við erum að tala um öryggismál og bætta aðstöðu. Við erum ekki að tala um, eins og sumir halda, að fjölga atvinnutækifærum á Suðurnesjum vegna þess að það liggur við að þau séu bara orðin of mörg, það er alla vega nóg að gera þar. Við erum að hugsa um hagsmuni Gæslunnar og öryggi borgaranna.

Samkvæmt úttektinni frá 2011 kemur fram að rekstrarkostnaður er talinn aukast um 691 millj. kr. á ári miðað við fyrirliggjandi forsendur, en dýrasti þátturinn er breyting á rekstri flugdeildar og aksturskostnaður. Ég dreg þessar tölur í stórlega í efa eins og ég hef komið að áður í ræðu minni. Skýrsluhöfundar gefa sér einnig að fólk á Suðurnesjum muni ekki sækjast eftir störfum hjá Gæslunni í framtíðinni. Það er mjög sérstakt svo ekki sé meira sagt. Nú þegar starfa á svæðinu margir Suðurnesjamenn og eftir því sem ég best veit eru þeir mjög ánægðir með að starfa fyrir Landhelgisgæsluna og fleiri gætu mögulega bæst við.

Ég hef nú þegar bent á nokkra stóra galla í þessari hagkvæmnisathugun. Hún er ekki alslæm en það vantar ýmislegt inn í hana, sumar forsendur eru breyttar og aðrar beinlínis rangar. Ég tel mig hafa sýnt fram á að þörf sé á að láta vinna aðra slíka athugun, af hlutlausum fagaðilum, sem yrði þá ítarlegri en sú fyrri og allir þættir teknir inn. Ég skil í raun ekki að slík athugun hafi ekki farið fram samhliða vinnu við langtímastefnumótun Landhelgisgæslunnar. Mér hefði þótt eðlilegt að það hefði verið gert. Ég geri mér grein fyrir að fjármunir liggja ekki á lausu um þessar mundir en eins og ég hef nefnt áður gæti þessi flutningur Gæslunnar sparað ríkinu fjármuni til lengri tíma litið, aukið öryggi borgaranna og nýtt húsnæði sem við erum þegar að greiða fyrir rekstur á. Aðalatriðið er að fólk sjái heildarmyndina og sé með skýra framtíðarsýn.

Með flutningi Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja myndi ríkisvaldið gera Landhelgisgæsluna að enn öflugri stofnun til hagsbóta fyrir landsmenn alla, aðstaðan fyrir starfsemina yrði mun betri og tryggð til framtíðar.