146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

135. mál
[16:15]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað sem öllum málskilningi líður er trauðla hægt að segja að það að samþykkja að hefja undirbúning að einhverju feli annað í sér en að fullvissa sig um að það verði að veruleika. Spurningin er bara hvað þarf að gerast áður en það verður að veruleika og hvenær það gerist. Ég er ekki fyrrverandi hv. þm. Ögmundur Jónasson. Ég hef miklar mætur á þeim góða manni en endursögn á orðum hans í ræðustól finnst mér ekki koma í staðinn fyrir alvöruúttekt á málinu. Hvað sem öllu líður hefur verið gerð hagkvæmniathugun. Mér finnst að niðurstöður hennar verði ekki hraktar í einni ræðu í ræðustól Alþingis. Það má vel vera að skynsamlegt sé og gott að á endanum verði Landhelgisgæslan flutt til Reykjanesbæjar. Ég ætla að játa að ég veit það ekki, til þess þyrfti ég að heyra betur í Landhelgisgæslunni sjálfri. Ég þyrfti að fá ítarlega skýrslu sem gengi þá í berhögg við fyrri hagkvæmniathuganir og fleira slíkt, eða hvað?

Það sem ég er að segja er að við eigum að hafa lært af mistökum síðustu ára, t.d. hvað varðar Fiskistofu, og við sjáum að hv. þingmaður hristir hér höfuðið. Það er betra að undirbúa jafn stóra aðgerð og um er að ræða vel. Þess vegna finnst mér það að vera búin að gefa sér niðurstöðu hagkvæmniathugunar fyrir fram ekki góð fræðimennska.