146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

135. mál
[16:19]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari þingsályktunartillögu. Þann fögnuð minn ber þó ekki að skilja þannig að ég sé að öllu leyti fylgjandi því að Landhelgisgæslan verði flutt til Reykjanesbæjar. Ég þekki máli einfaldlega ekki nógu vel til þess að mynda mér skoðun um það. Ég treysti því hins vegar að ef af verður muni það vera gert að aflokinni mikilli grundvallarskoðun á öllum hliðum málsins svo við fáum ekki önnur dæmi eins og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé minnist á hér varðandi aðra stofnun sem flutt var út á land, reyndar í mína heimahaga. Þess ber að geta að sú úttekt sem hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir hafði hér mörg orð um er komin svolítið til ára sinna, þannig að ég held að það sé full ástæða til að ný úttekt fari fram.

Þingmaðurinn minntist einnig á að hugsanlegt væri að staðsetja þyrlu norður á Akureyri. Ég verð að viðurkenna að ég er svolítið „svag“ fyrir því, svo ég sletti nú, með leyfi forseta. Ég held að við þurfum að skoða hlutverk Landhelgisgæslunnar í stærra samhengi, þá ég við sjúkraflutninga ekki bara hin hefðbundnu útköll sem hún sinnir alla jafna, heldur líka neyðarflutninga. Ég veit ósköp vel að það þýðir ekki að flytja sjúklinga með þyrlum yfir hálendi Ísland nema þær séu búnar jafnþrýstibúnaði o.s.frv., en ég held að þetta geti verið eitthvað sem væri vert að skoða í stóru samhengi til framtíðar.