146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

135. mál
[16:22]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða ræðu og er ánægð með að hann skuli vera jákvæður fyrir því að þetta mál verði skoðað vandlega. Og það er góður punktur varðandi sjúkraflugið. Ég hafði nú ekki meira en 15 mínútur til þess að fara yfir málið hér áðan og þar af leiðandi sleppti ég þeim þætti úr ræðunni. Það er einmitt hluti af því sem þyrfti að taka inn í þá athugun sem ég og hv. þm. Kolbeinn Proppé erum sammála um að þurfi að fara fram, þ.e. að taka möguleg hagkvæmnisáhrif inn í jöfnuna. Ég var að tala um flugið og að breyta bakvaktafyrirkomulaginu í viðverufyrirkomulag. Þá þyrfti að fjölga þingmönnum … nei, þingmönnum, það þarf ekki að fjölga þeim, [Hlátur í þingsal.] það þarf að fjölga flugmönnum. Það er mjög góður punktur sem hv. þm. Einar Brynjólfsson benti á, að skoða þann þátt í samhengi við sjúkraflugið.

Ég held komið hafi skrifleg fyrirspurn á síðasta þingi frá hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur þar sem hún óskaði eftir upplýsingum um fjölda útkalla sjúkraflugs á mismunandi landsvæði. Það kom einmitt fram í svari ráðherra á þeim tíma að langflest útköllin voru fyrir norðan og austan, á miðin fyrir austan, held ég. Það var mjög áberandi. Ég segi að eitt þarf ekki að útiloka annað í þessu máli. Þó að Landhelgisgæslan yrði staðsett suður frá er vel hægt (Forseti hringir.) að sjá það fyrir sér að þyrla yrði á norðursvæðinu.