146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

135. mál
[16:24]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þetta snýst allt um alls kyns stór samhengi. Ég vil benda á við þetta tækifæri að 2. febrúar sl. lagði ég fram fyrirspurn til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um viðbrögð við lokun neyðarbrautar. Það er þess vegna sem ég er svolítill áhugamaður um að Landhelgisgæslan komi hugsanlega nálægt sjúkraflutningum. Þar spurði ég ráðherrann, með leyfi forseta:

„Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa til að bregðast við lokun svokallaðrar neyðarbrautar (NA/SV) á Reykjavíkurflugvelli sem hefur leitt til þess að við óhagstæð veðurskilyrði er ógerlegt að lenda sjúkraflugvélum í nánd við eina hátæknisjúkrahús þjóðarinnar?“

Ég hef enn ekki fengið neitt svar, sem minnir mig á það að ráðherra ber að svara innan 15 virkra daga, held ég megi segja, en það er nú annar handleggur. En þarna erum við einmitt að tala um hluti sem hanga á sömu spýtunni.