146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

135. mál
[16:25]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það verður áhugavert að sjá svarið frá ráðherra þegar það berst. Ég tek undir með hv þingmanni að það er orðið tímabært að ráðherra svari. Ég hvet hann hér með til þess að svara hv. þm. Einari Brynjólfssyni vegna þess að ég vildi gjarnan sjá hvað hann hefur að segja um þetta mál. Þetta er mjög mikilvægt.

Að lokum, ég ætla nú ekki að hafa þetta lengra, en enn og aftur vil ég ítreka að málið snýst fyrst og fremst um öryggi. Þetta er ekki það sem sumir vilja kalla kjördæmapot, þetta snýst ekki um það. Staðreyndin er sú að aðstaðan er til staðar á þessu fyrrverandi varnarsvæði. Þarna starfa nú þegar um 50 manns á vegum Gæslunnar. Það hefur enginn áhuga á einhverjum flumbrugangi og eins og við vitum öll þarf að auka verulega fjárframlög til Gæslunnar. Við ræddum það þegar við lukum fjárlögum hér fyrir jól, og það á að vera sameiginlegt markmið okkar. Komið hefur fram í könnunum meðal Íslendinga að Landhelgisgæslan er sú stofnun á Íslandi sem Íslendingar bera mest traust til. Þetta þurfum við að gera vel. Í langtímaáætlun um Landhelgisgæsluna kemur fram að bæta eigi flugflotann og ýmislegt sem er kannski ekki eins og það getur best orðið.

Mér finnst veigamiklum þáttum hafa verið sleppt úr í heildarsamhenginu. Ég fer fram á að menn taki þetta mál vandlega til skoðunar og með opnum huga, vegna þess að ég tel að það yrði okkur fyrir bestu (Forseti hringir.) að Gæslan yrði flutt suður eftir og fengi þar með (Forseti hringir.) betri aðstöðu. Öryggi landsmanna yrði enn betra en það er í dag.