146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

húsnæði Listaháskóla Íslands.

143. mál
[16:29]
Horfa

Flm. (Einar Brynjólfsson) (P):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir eftirfarandi þingsályktunartillögu um húsnæðismál Listaháskóla Íslands, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ráðherra mennta- og menningarmála að kveða á um framtíðarhúsnæði Listaháskóla Íslands og leysa þannig til frambúðar þann húsnæðisvanda sem skólinn hefur búið við um langa hríð.“

Flutningsmenn tillögunnar eru auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Björn Leví Gunnarsson, Smári McCarthy, Halldóra Mogensen, Viktor Orri Valgarðsson, Ari Trausti Guðmundsson, Birgitta Jónsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ásta Guðrún Helgadóttir, Gunnar Ingiberg Guðmundsson, Þórhildur Sunnar Ævarsdóttir og Logi Einarsson.

Listaháskóli Íslands var stofnaður árið 1999 með sameiningu ólíkra skóla sem kenndu m.a. tónlist, leiklist, hönnun og myndlist. Markmiðið var að færa listkennslu á Íslandi upp á háskólastig og stuðla að samstarfi milli þessara greina.

Sameiningin hefur heppnast með miklum ágætum hvað þetta varðar. Listaháskólinn hefur stuðlað að nýsköpun, samþættingu listgreina og gegnir lykilhlutverki fyrir skapandi greinar. Listaháskólinn býður upp á fjölbreytt nám, samtals 18 námsbrautir í fimm deildum. Í hönnunar- og arkitektúrdeild eru í boði fjórar brautir til BA-gráðu, arkitektúr, fatahönnun, grafísk hönnun og vöruhönnun, auk meistaranáms í hönnun. Í sviðslistadeild eru í boði þrjár brautir til BA-gráðu, sviðshöfundabraut, leikarabraut og samtímadans, auk alþjóðlegs meistaranáms í sviðslistum. Í listkennsludeild er boðið upp á meistaranám í listkennslu og diplómanám til kennsluréttinda. Í myndlistadeild er boðið upp á þriggja ára nám til BA-gráðu og tveggja ára meistaranám. Í tónlistardeild er í boði þriggja ára nám til B.Mus og BA-gráðu. Einnig er í boði diplómanám í hljóðfæraleik og meistaranám í tónsmíðum til MA-gráðu og í sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi til M.Mus-gráðu.

Þrátt fyrir fögur fyrirheit í upphafi má segja að Listaháskóli Íslands sé olnbogabarn íslensku háskólafjölskyldunnar. Starfsemin er á víð og dreif í misjafnlega hentugu húsnæði, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Ekki er nóg með að húsnæðið henti ekki alltaf starfseminni heldur er það væntanlega heilsuspillandi í einhverjum tilvikum, eins og umfjöllun síðustu daga og vikur hefur sýnt fram á. Aðgengi fyrir hreyfihamlaða er slæmt, svo ekki sé meira sagt. Undanfarin tíu ár hefur niðurskurðarhnífurinn verið á lofti þó að ekkert hafi verið til að skera niður.

Þær eru ófáar skýrslurnar og úttektirnar sem skrifaðar hafa verið um hagræn áhrif skapandi greina. Í einni slíkri, sem ber heitið Kortlagning á hagrænum áhrifum skapandi greina, sem unnin var árið 2011, reyndar svolítið langt um liðið, kemur fram að 5,2% ársverka á íslenska vinnumarkaðnum árið 2009 tengdust menningu og skapandi greinum sem var á þeim tíma nákvæmlega jafn hátt hlutfall og í landbúnaði og sjávarútvegi til samans. Það kæmi mér ekki á óvart að þetta hlutfall hefði hækkað í millitíðinni.

Í þessari skýrslu kemur einnig fram að hlutur þessara greina í heildarútflutningstekjum árið 2009 var um 3%, sem jafngilti u.þ.b. 24 milljörðum á þeim tíma. Það er því alveg ljóst að öflugur stuðningur við Listaháskóla Íslands, m.a. í formi hentugs húsnæðis, mun skjóta enn styrkari stoðum undir þessar greinar.

Það gefur augaleið að starfsemi á einum stað í þar til gerðu húsnæði myndi skipta sköpum fyrir nemendur og starfsfólk. Reksturinn yrði hagkvæmari, samskiptin meiri og síðast en ekki síst yrði námsárangur þess efnilega fólks sem skólann sækir enn glæsilegri.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt frekar og óska þess að þessi þingsályktunartillaga gangi til allsherjar- og menntamálanefndar.