146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

húsnæði Listaháskóla Íslands.

143. mál
[16:42]
Horfa

Andri Þór Sturluson (P):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur að þetta er mjög gott mál. Þess vegna finnst mér hálf glatað að sjá að stjórnarandstaðan er ein um að finnast það nógu mikilvægt til að vera hérna í salnum. Ég hefði viljað sjá einhverja úr ríkisstjórnarflokkunum sýna málinu áhuga, en það er greinilegt að svo er ekki.

Það þarf ekki að kynna sér ástand Listaháskólans lengi til að verða fyrir miklum vonbrigðum. Það kemur fram um ástand hans að það er mikill kostnaður, algjör óvissa, myglusveppur, aðstaða sem hentar ekki, léleg kynding, skortir hljóðeinangrun, óvinnandi rými, myndlistarkennslan í sláturhúsi, ekkert aðgengi fyrir fatlaða og óvíst hvort skólinn fái nægt fjármagn. Þetta segir manni að ástandið er ömurlegt og allt algjörlega í lamasessi.

Þar eru nemendur sem borga næstum því hálfa milljón á ári fyrir að vinna og læra í myglu og viðbjóði. Við ættum eiginlega að leyfa þessu fólki að sækja nám sitt frítt fyrst aðstæður eru svona. Ef við getum ekki gert betur við það er hneyksli að vera almennt að rukka fyrir námið.

Það er sérstaklega alvarlegt hversu lélegt aðgengi er fyrir hreyfihamlaða. Fólk getur ekki menntað sig til lista ef það er í hjólastól, sem þýðir náttúrlega að aðgengi til náms er ekki jafnt. Ef menn eru viðkvæmir fyrir myglu geta þeir ekki heldur sótt skólann. Fagráð Listaháskólans lýsti ástandinu 25. október 2016 með þeim orðum að ekki yrði unað við óbreytt ástand. Þeim var engu að síður gert að gera það. Enn og aftur vil ég minnast á það hversu miklum vonbrigðum það áhugaleysi sem listum er sýnt veldur mér. Ég tel að listin hafi komið Íslandi á kortið. Ferðamennirnir eru hér af því það listamennirnir okkar vöktu athygli á okkur. Listamenn verðskulda mannsæmandi aðstæður.