146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

húsnæði Listaháskóla Íslands.

143. mál
[16:55]
Horfa

Flm. (Einar Brynjólfsson) (P):

Virðulegur forseti. Ég þakka stuðning allra þeirra hv. þingmanna sem hafa tekið til máls í dag. Það er alveg rétt sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir segir, þetta snýst um pólitíska ákvörðun, þrek og þor og ekkert annað.

Vandinn er náttúrlega sá að það er erfiðara að mæla árangur og arð af listum og skapandi greinum en af mörgum öðrum greinum. Það er bara einfaldlega þannig. Við hneigjumst alltaf til þess að skoða þær stærðir sem eru fastar og auðmælanlegar. Það er auðvelt að reikna upp hversu mikill arður mun falla til af menntuðum tannlækni, svo dæmi sé tekið, menntuðum húsasmið o.s.frv. Það eru miklu einfaldari og fyrirsjáanlegri stærðir þar í húfi. Þess vegna föllum við því miður alltaf í þá gryfju að láta þær greinar sem ég hef talað fyrir að fái húsaskjól sitja á hakanum. Ég geri mér vonir um að þetta mál fái framgang. Kannski er það óþarfleg bjartsýni nýliðans, en hver veit hvað gerist.

Að lokum vil ég endurtaka þakkir mínar til þeirra sem hafa stutt mig hér í orði. Ég vona að það muni verða þverpólitísk sátt þegar kemur að því að styðja það orð í orði.