146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

fjölmiðlar.

144. mál
[17:10]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að kom örstutt upp um þetta mál. Ég sat í allsherjar- og menntamálanefnd þegar það var flutt síðast og við fengum gesti til okkar vegna málsins. Það var frekar mikill þungi hjá þeim sem eru þessu minna hlynntir eða hafa áhyggjur af því að geta ekki staðið undir þessu, ég ætla ekki að segja að þeir séu ekki hlynntir málinu því að það kom ekki fram í umsögnum þeirra við frumvarpið á sínum tíma. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vera á þingi þegar íslenska táknmálið var samþykkt sem fyrsta mál heyrnarlausra og heyrnarskertra, gott ef ég var ekki meðflutningsmaður á því máli á þeim tíma. Mér finnst alla vega full ástæða til þess að hvetja menn til að koma með athugasemdir, ég geri ráð fyrir því að fjölmiðlanefnd og stóru miðlarnir, 365 miðlar, og aðrir smærri miðlar komi með umsagnir. Það voru þó ekki mjög margir sem skiluðu umsögn um málið síðast. Ég átti hins vegar samtal við fulltrúa frá minni miðlum sem höfðu miklar áhyggjur af þeim kostnaðarauka sem fylgir. Það væri kannski ástæða til þess að ýta við þeim við umfjöllun nefndarinnar um málið af því að við vitum að þetta er mjög flókið verkefni og það er mjög kostnaðarsamt. Þegar það var lagt fram síðast mátu 365 miðlar það sem svo að kostnaðurinn væri í kringum 20–25 milljónir á ári. Það eru miklir peningar.

Það er ástæða til að hvetja þá aðila sem ætla að leggja fram umsagnir til að koma með hugmyndir að lausnum. Getum við gert þetta í skrefum eða eitthvað slíkt, af því að þetta er íþyngjandi og viðamikil breyting? Eins og hv. framsögumaður kom inn á eru miklu fleiri undir en þeir sem alltaf hafa tilheyrt hópi heyrnarlausra eða heyrnarskertra. Það er líka eldra fólk og aðrir sem hafa tapað heyrn í gegnum árin og eftir aldurinn færist yfir.

Fjölmiðlanefnd var líka með ágætisumsögn um málið síðast og benti á þennan kostnaðarauka og hvort það ætti að texta allt efni.

Það segir, með leyfi forseta, í 30. gr. laga um fjölmiðla:

„Þær fjölmiðlaveitur sem miðla myndefni skulu eins og kostur er leitast við að gera þjónustu sína aðgengilega sjón- og heyrnarskertum auk þeirra sem búa við þroskaröskun. Úrræði til að tryggja aðgengi eru m.a. táknmál, textun og hljóðlýsing.“

Ákvæði 30. gr. er byggt á ákvæði 3. gr. c í tilskipun Evrópusambandsins um hljóð- og myndmiðlun, sem er núna 7. gr. í hljóð- og myndmiðlunartilskipun. Í henni segir að aðildarríki skuli „hvetja veitendur fjölmiðlaþjónustu, sem heyra undir lögsögu þeirra, til að sjá til þess að þjónusta þeirra verði smátt og smátt gerð aðgengileg sjón- eða heyrnarskertu fólki“.

Fjölmiðlanefnd hefur svo í rauninni engin úrræði til að beita sektum eða einhverju slíku, enda vill maður ekki fara fram með slíkt, maður vill frekar að þetta sé gert í sátt við þá sem veita þjónustuna. En þarna er beinlínis sagt að þetta eigi að gerast smátt og smátt þangað til að efnið er allt saman textað.

365 miðlar óskuðu eftir því t.d. að íþróttakappleikir yrðu undanskildir. Það má vel vera að það sé eitthvað sem hægt er að sættast á í fyrstu skrefum eða einhverju slíku, en auðvitað eigum við alltaf að stefna að því að þetta verði hægt að gera með allt efni. Fjölmiðlanefnd bendir einmitt á það og það kemur fram í umsögn þeirra þar sem rakið er að framkvæmd textunar á myndefni getið verið margvísleg. Eins og við vitum er það sem er ekki í beinni útsendingu gjarnan textað fyrir fram og ekki tiltökumál að eiga við það.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Textun efnis sem sent er út í beinni útsendingu fer ýmist fram með talgreiningu eða með tækni sem á ensku er kölluð „broadcast stenography“ eða „stenocaptioning“ og sem á íslensku mætti þýða sem rauntímatextun eða rauntímatextavarp. Textun með talgreiningu fer þannig fram að starfsmaður endursegir hið talaða mál í hljóðnema, þar sem það er túlkað með aðstoð tölvuforrits og yfirfært í rituð orð sem birtast á skjánum samtímis útsendingunni. Textun með rauntímatextavarpi fer þannig fram að starfsmaður slær hraðritunartákn inn í tölvuforrit sem yfirfærir táknin í rituð orð er birtast á skjánum jafnóðum.“

Það er sýnt fram á að það er til einhvers konar tækni til þess að gera þetta. Eflaust kostar hún mikið og það má líka velta því fyrir sér hvort ríkið á að veita tiltekinn stuðning þeim fjölmiðlum sem er gert þetta skylt, innleiðingarkostnað eða eitthvað þess háttar, til þess að koma því af stað, en ég ætla svo sem ekkert að segja um það. Mér finnst alla vega mjög mikilvægt að þetta verði framkvæmt og alls ekki útilokað að ríkið komi með einhverjar mótvægisaðgerðir. Ég held að tækninni fleygi svo ótrúlega hratt fram.

Við heyrðum það í útvarpinu að hægt væri að tala við tækin sín í eldhúsinu, að verið væri að vinna app sem myndi gera okkur kleift að tala íslensku við heimilistækin okkar og ýmislegt annað. Ég held að í sjálfu sér sé þetta ekki eins fjarri okkur og það lítur út fyrir að vera. Þegar tekið er viðtal í beinni við óðamála þingmenn t.d. getur verið snúið að eiga að texta það um leið en ég held að tæknin sé til. Eflaust kostar hún eitthvað, en það kostar líka að viðhalda litlu tungumáli. Það kostar örþjóð eins og okkur að vera með eigið tungumál.

Fyrst og síðast snýr þetta að mannréttindum þess fólks sem nýtur ekki nema brotabrots af því efni sem miðlar bjóða upp á, hvort sem það eru útvarpsmiðlar eða sjónvarpsmiðlar eða hvað það er, vegna þess að það heyrir ekki. Myndrænt efni getur vissulega nægt að mörgu leyti, eins og t.d. í íþróttakappleikjum, þá getur það dugað. En ef maður hugsar um það sjálfur þá ætla ég að horfa á fótboltaleik á eftir og ég veit ekki alveg hvernig mér fyndist hann hljóðlaus, ekki eins skemmtilegur geri ég ráð fyrir. En þá er spurningin hvort þýtt er frá orði til orðs eða hvort það er dregið einhvern veginn saman.

Við eigum að finna leiðir til þess að gera þetta. Þetta er mannréttindamál. Við hljótum að geta leitað leiða og fundið lausnir á þessu án þess að fyrirtæki fari á hliðina, því að það er ekki það sem er verið að leggja til, heldur aðeins að styrkja stöðu og tryggja mannréttindi hópsins sem býr við þetta.