146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

fjölmiðlar.

144. mál
[17:19]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það eru margar aðgangshindranirnar í samfélaginu hvort sem það eru þröskuldar sem ekki leyfa aðgengi hjólastóla að húsnæði eða hvað annað. Þetta er ein af þeim, fólk sem erfitt á með heyrn eða skilur íslensku ekki endilega eins og fólk sem hefur íslensku að móðurmáli gerir. Ótal margir hópar hafa ekki fullt aðgengi að fjölmiðlum og sérstaklega því efni sem er á íslensku í fjölmiðlum, sem er oft það efni sem skiptir mestu máli varðandi þátttöku í samfélaginu. Þetta er fréttatengt efni oftar en ekki, umræðuþættir og fréttatímarnir sjálfir. Þetta eru þeir þættir ljósvakamiðlanna sem snerta lýðræðisþátttöku fólks hvað mest. Mér þykir því einboðið að við sem þing finnum einhverjar lausnir til að ryðja þessum hindrunum úr vegi.

Eins og nefnt hefur verið er tæknin óðum að gera þetta ódýrara og raunhæfara en oft áður. Hvort sem þetta mál verður samþykkt eða ekki þarf að efla tungutækni svo íslenskan eigi sér viðreisnar von í stafrænum heimi. Þetta mál, að texta íslenskt efni í sjónvarpi, er bara örlítill angi af því að við gerum allt sem við getum til að nota tungutæknina til að verja íslenskuna og styðja hana inn í langa framtíð. Þar hefur allt of lengi verið skorið við nögl í fjárveitingum. Það er náttúrlega ekki fjallað um það í þessu máli, en vonandi er að sú þróun fái að halda áfram samhliða af því að hún mun bara styðja þetta verkefnin.

Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að rekja það hvernig málið fór í gegnum allsherjar- og menntamálanefnd síðast, þau sjónarmið sem þar komu fram og þær hugmyndir að lausnamiðaðri nálgun sem hún kom með, sem ég mun taka með mér í nefndina að lokinni þessari umræðu. Ég vona að við getum bundist böndum sem flest að koma þessu máli áfram til þess að við þurfum ekki mikið lengur að horfa upp á það að einu íslensku fréttirnar sem eru textaðar í sjónvarpi séu þær sem ritstjórn fjölmiðilsins ákveður að eigi sérstakt erindi við heyrnarlaust fólk, heldur verði samfélagsþátttaka fólks sem þarf textun viðurkennd í öllu málum, ekki bara þeim sem snerta heyrnarleysi sérstaklega.